133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

ummæli þingmanns um útlendinga.

[10:37]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Valdimar Leó Friðriksson er veikur heima með flensu í dag en mér er ljúft og skylt að koma hér upp og útskýra nánar við hvað þingmaðurinn átti. (Gripið fram í.) Já. Það er nefnilega þannig að það hafa m.a. verið ítrekuð tilfelli þar sem menn hafa verið teknir á Keflavíkurflugvelli, líka á Seyðisfirði, með hráefni til stórkostlegrar framleiðslu á fíkniefnum. Hv. þm. Valdimar Leó Friðriksson er þekktur að störfum sínum innan æskulýðs- og íþróttahreyfingarinnar og hann er, eins og við í Frjálslynda flokknum, mikill andstæðingur fíkniefnabölsins sem er ein mesta ógn sem steðjar að íslenskri æsku í dag.

Í íslenskri orðabók er orðið „hryðjuverk“ skilgreint sem ódæðisverk, manndráp og limlesting. Hvað er verksmiðjuframleiðsla og dreifing á fíkniefnum hér á landi annað en ódæðisverk, limlesting og jafnvel manndráp? Mér þætti vænt um að heyra það frá hv. þm. Guðjóni Ólafi Jónssyni hvort hann geti tekið undir það að framleiðsla og dreifing á þessum efnum falli ekki undir þetta.

Við getum alveg rifjað upp hvernig árið í fyrra var varðandi innflutning á fíkniefnum.

4. febrúar: Tveir Litháar handteknir á Keflavíkurflugvelli vegna smygls á 1,7 lítrum af amfetamínbasa. Þetta hefði dugað til að framleiða rúm 13 kg af amfetamíni.

26. febrúar: Lithái tekinn með 2 lítra af amfetamínbasa sem hefði dugað til að framleiða tæp 18 kg af amfetamíni.

6. júlí: Tveir Litháar teknir með 12 kg af amfetamíni sem fundust í bensíntanki bifreiðar sem kom með Norrænu.

3. apríl: 42 flöskur með fíkniefnum finnast í bensíntanki bifreiðar og að því máli átti aðkomu maður m.a. frá Hollandi.

Þetta átti hv. þm. Valdimar Leó Friðriksson við og mér þætti gaman að heyra það hvort Framsóknarflokkurinn sé sammála því eða ekki hvort þessir menn séu hryðjuverkamenn eða eitthvað annað.