133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

ummæli þingmanns um útlendinga.

[10:41]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér tala hv. þingmenn Framsóknarflokksins um útúrsnúninga en ég hef orðið vitni að ekki einungis útúrsnúningum framsóknarmanna á orðræðu Frjálslynda flokksins heldur einfaldlega að farið sé rangt með. Mér finnst þetta vera alvarlegt hjá Framsóknarflokknum og það sýnir ef til vill í hvaða stöðu flokkurinn er þegar farið er t.d. rangt með hvað sagt hefur verið, og þá vitna ég til pistils hv. þm. Sæunnar Stefánsdóttur á Rás 2 þar sem hún úthrópar ræðu en finnur úthrópuninni engan stað t.d. í ræðu hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar, formanns Frjálslynda flokksins.

Í gær var ég staddur í Menntaskólanum við Sund og flutti þar ræðu og þar var vitnað í ræðu mína af stjórnarmanni í ungliðahreyfingu Framsóknarflokksins og þar var rangt farið með. Maður spyr sig: Hvað er að hjá Framsóknarflokknum? Er ekki hægt að taka málefnalega umræðu um þetta eða er verið að forðast önnur mál? Er t.d. verið að forðast þá stöðu sem er uppi í fíkniefnamálum þjóðarinnar sem Framsóknarflokkurinn ber ábyrgð á? Er verið að forðast umræðu um Byrgið með útúrsnúningum hvað eftir annað? Mér finnst átakanlegt að horfa upp á Framsóknarflokkinn sem hefur lofað betrun og bót í fíkniefnamálum þjóðarinnar, milljörðum, rétt fyrir kosningar og við stöndum uppi með ófremdarástand. (GÓJ: Þú ættir að biðjast afsökunar.) Mér dettur það ekki í hug, hv. þingmaður, að biðjast afsökunar á nokkru sem við höfum flutt, nokkurri ræðu, því að ég verð að segja það að við höfum verið með mjög málefnalega umræðu í þessu og m.a. flutt áfram þær áhyggjur sem verkalýðshreyfingin hefur haft af þessum málefnum en því miður reynir Framsóknarflokkurinn að úthrópa þá orðræðu.