133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

skýrsla um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál Íslands 1945--1991.

[10:58]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil segja strax í upphafi að ég tek undir allar tillögur kaldastríðsnefndarinnar. Ég tel hins vegar fráleitt að draga þá ályktun af skýrslu kaldastríðsnefndarinnar að hún sýni óyggjandi að engar eftirgrennslanir um pólitískar skoðanir hafi átt sér stað eftir 1968. Það kemur fram í skýrslunni að starfsmenn voru þjálfaðir í njósnastörfum hjá erlendum leyniþjónustum og fyrir slíka menn væri fráleitt óyfirstíganlegt að komast inn á símalínur miðað við þann tækniumbúnað sem skýrslan segir að hafi þurft til hlerana eftir 1970. Það er líka hreinn barnaskapur hjá hæstv. forsætisráðherra og öðrum að halda að slíkir menn, þjálfaðir njósnarar, hefðu upplýst kaldastríðsnefndina um ólögmætar hleranir nema refsiábyrgð væri líka aflétt.

Eini hlerunarbúnaður lögreglunnar var staðsettur í herbergjum Útlendingaeftirlitsins. Það vann ekki að sakamálum. Hvers vegna var hann þar ef hann var einungis notaður til hlerana í sakamálum? Þetta stríðir einfaldlega gegn almennri skynsemi. Skýrslan segir líka að hleranir á róttæklingum hafi snögghætt strax og eftirlitið flytur á Hverfisgötu og fær nýjan hlerunarbúnað. Meira að segja í heimsókn Rogers utanríkisráðherra Bandaríkjanna á hátindi Víetnamstríðsins var ekki hlerað en lögreglan var þó hvarvetna fyrir þar sem mótmælendur birtust. Þetta er heldur ekki trúverðugt.

Málið snýst líka um annars konar eftirlit. Böðvar Bragason lögreglustjóri upplýsir í Fréttablaðinu 7. nóvember að lögreglan sjái um að gefa út öryggisvottorð um þá sem eru á leið til starfa fyrir NATO. Það er óhugsandi að engin rannsókn liggi þar að baki og ef menn veita aðgang með þeim hætti að innstu leyndardómum NATO hljóta þeir líka að vera þess umkomnir að veita hann ekki. Og hvernig var háttað samskiptum stjórnvalda og leyniþjónustu Varnarliðsins? Voru þau engin eftir 1972? Það tel ég einfaldlega ótrúlegt.

Ég tel því algjörlega fráleitt að halda fram að kaldastríðsskýrslan hreinsi þetta mál, þvert á móti, eina leiðin til þess er norska leiðin, sakaruppgjöf þeirra sem að þessum málum hafa komið fram á okkar dag. Ekkert annað kemur til greina.