133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

skýrsla um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál Íslands 1945--1991.

[11:00]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þær skýrslur sem við erum að ræða eru miklar að vöxtum en ég vek athygli á að hér er ekki um að ræða sagnfræðirannsókn. Hér er um að ræða tillögur um hvernig eigi að veita sagnfræðingum aðgang að upplýsingum. Hins vegar höfum við fengið að heyra í mönnum sem reyna að sveipa sig skikkju sagnfræðingsins og hvítþvo þá stjórnmálamenn og þá stjórnmálaflokka sem skipulögðu og lögðu blessun sína yfir njósnir og hleranir af pólitískum toga.

Fram kemur að búið er að eyða ýmsum mjög mikilvægum gögnum sem lúta að hlerunum og enn er á það að líta, þó ég telji starf þessarar nefndar hið besta að flestu leyti, að aðgangur almennings mætti vera opnari en gert er ráð fyrir hér. Ég vísa t.d. í bréf frá lögreglustjóranum í Reykjavík þar sem segir frá samræðum lögreglustjóra og utanríkisráðherra fyrr á tíð, árið 1959, þar sem rætt er um njósnir og hleranir og nafn nefnt í því samhengi, að ef viðkomandi er látinn þá getum við ekki fengið upplýsingar um þann mann sem þarna var hleraður fyrr en að 80 árum liðnum.

Síðan er því haldið fram að engar hleranir hafi verið án dómsúrskurðar. Þetta á enn eftir að kanna betur og ég vísa í það sem segir hér einnig, að enginn hafi verið ákærður eða handtekinn á grundvelli þeirra gagna sem aflað var með hlerunum. Ég spurði þegar þetta var kynnt á sínum tíma hvort menn væru að kveða upp úr um að þetta hefði t.d. ekki verið notað, þ.e. hleranir, í tengslum við réttarhöldin í kjölfar atburðanna í mars 1949 þar sem ljúgvitni voru borin fram til að hafa æruna og mannréttindi af einstaklingum sem höfðu tekið þátt í (Forseti hringir.) lýðræðislegri baráttu, þá var ég upplýstur um það að hér væri einvörðungu (Forseti hringir.) verið að vísa í samræður við (Forseti hringir.) þá sem þarna hefðu átt hlut að máli, engin endanleg niðurstaða. Og síðast, hæstv. forseti, verð ég að segja að þegar menn (Forseti hringir.) eru að leggja blessun sína yfir að hundelta lýðræðissinna (Forseti hringir.) sem komu hingað 1968 til að mótmæla herforingjastjórninni (Forseti hringir.) í Grikklandi þá sætir það (Forseti hringir.) furðu og (Forseti hringir.) það er hneyksli.