133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

skýrsla um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál Íslands 1945--1991.

[11:14]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég vil ítreka það sem ég áður tók fram að við höfum náð ákveðnum áfanga í málinu og ég verð að lýsa furðu minni á því að menn geri athugasemdir við að þessi umræða fari fram nú þegar skýrsla nefndarinnar liggur fyrir. (SigurjÞ: Það er vælutónn í þessu.) Það var ekki minna en svo að menn töluðu um í þessu samhengi að hér værum við að fjalla um mestu mannréttindabrot sem framin hefðu verið í lýðveldissögunni. Og nú þegar fram koma tillögur um með hvaða hætti við ætlum að tryggja aðgang að öllum upplýsingum sem geta varpað ljósi á hvernig hlutirnir gengu fyrir sig á kaldastríðstímanum, koma þingmenn sömu flokka hingað upp og segja: Ja, hvað eruð þið að tala um svona ómerkilegt mál? Ekki var hægt að skilja orð hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar öðruvísi en svo að honum þætti tilefni þessarar umræðu tiltölulega léttvægt.

Staðreyndin er sú og það er auðvitað merkilegt að nú þegar tillögur nefndarinnar liggja fyrir um hvernig við ætlum að tryggja aðgang að gögnunum, að það skuli vera jafnríkur samhljómur á þinginu meðal þeirra sem taka þátt í umræðunni og raun ber vitni. Það er auðvitað fagnaðarefni og ber góðum vinnubrögðum nefndarinnar gott vitni, vegna þess að ekki var annað að merkja á síðasta ári í umræðum um þetta sama mál en mikillar tortryggni gætti um með hvaða hætti stjórnvöld hygðust veita aðgang að þeim gögnum sem hér er rætt um.

Ég vil taka það fram að lokum, hæstv. forseti, að ég hef engar ályktanir dregið af þessari skýrslu. Ég hef einungis tínt saman upplýsingar sem er að finna í skýrslunni sem varða einkum hlerunarmálin, en eins og menn vita tók nefndin viðtöl við marga lykilmenn til að fá yfirsýn yfir það hvernig verklagið var við hleranir á kaldastríðsárunum og hvaða skjöl og önnur gögn gætu hafa orðið til á þeim tíma. (Forseti hringir.) Það eru bara upplýsingar um þau atriði sem ég hef tínt til.