133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[11:35]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Í tilefni af þessari umræðu sem hér fer fram held ég að það sé rétt að geta þess að það hafði verið metið sem svo að hugsanlega ætti að ræða þessar áætlanir saman og samgönguráðherra hafði gert ráð fyrir því. Það kemur svo í ljós að menn hafa meiri áhuga á málinu en svo að þessi tími muni duga þrátt fyrir tvöfaldan ræðutíma. (Gripið fram í.) Þess vegna var auðvitað fallist á það þegar í ljós kom þessi mikli áhugi á málinu að ræða þau hvort í sínu lagi. Það er fullkomlega eðlilegt að ræða þá 12 ára áætlunina á undan vegna þess að hún er grundvöllur að því sem er síðan gert í fjögurra ára áætluninni. (ÖS: Er Halldór Blöndal sammála því?) Ég held að hv. þm. Halldór Blöndal sé fullkomlega sammála því og það er auðvitað ástæðan fyrir því að hann vill ræða þessar áætlanir hvora í sínu lagi. (ÖS: En hvar er hann?) Annars vegar er grundvöllurinn sem menn horfa á, áætlunin til lengri tíma, þetta langa plan sem menn hafa fyrir framan sig, og hins vegar hvernig menn útfæra það á þessum fjórum árum sem eru þá fyrst í röðinni. Ég held að það sé fullkomlega eðlilega að þessu staðið og lýsi því hversu mikinn áhuga menn hafa á samgöngumálum hér sem auðvitað er mikið hagsmunamál alls landsins, auðvitað ekki síst okkar sem á landsbyggðinni búum. Ég veit að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur ekki eins mikinn áhuga á samgöngumálum og við landsbyggðarþingmennirnir en við þurfum að fá að ræða þetta mjög ítarlega. Það er alveg fullkomlega eðlilegt, hv. þingmaður.

Af því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson tilgreindi hvað hefði verið rætt á fundi þingflokksformanna með forseta segir minni mitt það að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi spurst fyrir um hvort eðlilegt væri að ræða 12 ára áætlunina á undan og ég gat ekki merkt annað af orðum hans en að hann væri fullkomlega sáttur við þær skýringar sem fram komu á fundinum. Það var fallist á fyrirkomulagið af öllum þingflokksformönnum á fundi hvernig farið yrði með málið í þingsal í dag.