133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[11:44]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Fyrst af öllu vil ég geta þess vegna þeirra orða sem hér hafa fallið um að þingmenn hinna dreifðu byggða hefðu meiri áhuga á umferðarmálum eða samgöngumálum en þingmenn Reykjavíkur að ég vísa þeim orðum til föðurhúsanna. Þingmenn þéttbýlisins hafa ekki síður áhuga á samgöngumálum en þingmenn dreifbýlisins.

Í annan stað hafa menn verið að slá pólitískar keilur um það hvernig skuli farið með og eftir hvaða röð þetta mál skuli rætt en það er alveg ljóst að þessi tvö mál, samgönguáætlun fjögurra og 12 ára, verða ekki svo glögglega skilin í sundur. Ef, virðulegi forseti, fyrst á bara að ræða 12 ára áætlunina þarf forseti ábyggilega að berja oft í bjölluna því að ég er sannfærður um að þingmenn munu meira og minna blanda þessum tveimur málum saman og það er ekkert óeðlilegt. Í umræðum sem fara hér fram á eftir hljóta þessi tvö mál að verða saman undir að meira eða minna leyti.