133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[12:18]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra um annað mál, sem er mjög stórt meginverkefni, en það er að hér er gert ráð fyrir að byggja höfn í Bakkafirði, verkefni líklega upp á 6–8 milljarða þegar upp er staðið. Hér er ekkert minnst á rannsóknir vegna gangagerðar til Vestmannaeyja, sem áætlað er að kosti 18–30 milljarða, allt eftir því hvernig á það er litið. Er það ekki óboðlegt að ganga þannig frá að hér sé verið að ákveða endanlega að fara eigi þennan samgöngukost sem varanlega framtíðarlausn í samgöngumálum Vestmannaeyja?

Er hæstv. samgönguráðherra að kveða upp dauðadóm yfir hugmyndunum um jarðgöng á milli lands og Eyja með því að minnast ekki orði á það í áætluninni og gera eingöngu ráð fyrir höfn í Bakkafjöru sem skuli lokið árið 2010? Þarf ekki fyrst að fara í jarðgangarannsóknir sem skera úr um það endanlega hvort göng séu mögulegur kostur tæknilega og fjárhagslega? Margir halda því fram að svo sé og enn er deilt um málið. Þurfum við ekki fyrst að ganga úr skugga um það, hæstv. ráðherra? Er hæstv. ráðherra að kveða upp dauðadóm yfir jarðgöngum til Eyja eða hvað gengur honum til með því að hér er ekkert minnst á hinn kostinn?