133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[12:21]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er náttúrlega til marks um það sem gæti orðið ef hv. þm. Jón Bjarnason hefði einhver áhrif að hann hugsar mest um niðurskurð. Hann talar minna um það sem við höfum verið að gera, þessar stórkostlegu framkvæmdir um allt land, m.a. í kjördæmi hv. þingmanns — Þverárfjallsvegur, vegur í Djúpið til Ísafjarðar, ákvarðanir um Arnkötludal o.s.frv. Það mætti halda að þingmaðurinn hafi ekki komið í kjördæmi sitt í háa herrans tíð.

Hv. þingmaður má gera athugasemdir við það að ég hafi mikinn metnað og hafi uppi stór orð um samgöngumál. Ef hann getur ekki fylgt mér í þeim áformum verður svo að vera. Ég hika hins vegar ekki við að leggja fram metnaðarfullar áætlanir og koma þeim í framkvæmd. (Gripið fram í: Hvað segir Halldór Blöndal um það?)