133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[12:22]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra bað mig ekki álits þegar hann frestaði vegaframkvæmdum á Vestfjörðum í sumar. Hæstv. ráðherra spurði mig ekki álits þegar hann skar niður framkvæmdir á símapeningum til vegaframkvæmda á árinu 2007 um liðlega 2 milljarða kr. Ég er á þeirri skoðun að þjóðin sé orðin fullsödd á hæstv. ráðherra og þessi átta ár séu nóg pína í samgöngumálum fyrir þjóðina.

Árið 2006 var slappasta ár um árabil í vegaframkvæmdum í landinu. En nú á að grípa til einkaframkvæmda. Bjóða út og afhenda fyrirtækjum og einstaklingum vegi til uppbyggingar og til að taka gjald af. Ég minni á skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem hæstv. ráðherra lét sjálfur vinna en fer ákaflega leynt með, þar sem varað er við þeirri aðferð að ana út í einkaframkvæmdir í vegamálum að óathuguðu máli. Þar er bent á að ríkið sé miklu öflugri og sterkari aðili til vegaframkvæmda en einhver blind trú á einkavæðingu sem nú á að bjarga lélegri frammistöðu ráðherrans í þeim efnum.