133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[12:24]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur stýrt samgönguráðuneytinu í 16 ár. Ef mig brestur ekki minni hefur hæstv. ráðherra, Sturla Böðvarsson, setið þar í tólf ár en ekki átta. (Gripið fram í.) Átta eru það, allt í lagi. En flokkurinn hans hefur stýrt því í 16 ár á einhverjum mestu uppgangs- og þenslutímum í íslensku efnahagslífi. Sú þensla hefur hins vegar ekki verið í samgöngumálum.

En nú skulum við horfa til framtíðar. Næstu tólf ár eru hér undir og meðal þess sem talað er um í áætluninni er jarðgangagerð. Það er gott og vel en eins og annað í tíð þessarar ríkisstjórnar á sú jarðgangagerð ekki að fara fram neins staðar annars staðar en í landsbyggðarkjördæmum þó það sé vitað að þörfin er einna mest á suðvesturhorninu. Það er búið að slá Öskjuhlíðargöngin út af borðinu. Þau eru ekki inni á áætlun næstu tólf ár, til 2018. Hverju sætir það, frú forseti? Hvernig getur samgönguráðherra, sem hyggst af alvöru gera áætlun til framtíðar, látið höfuðborgarsvæðið algerlega mæta afgangi og nú er ég bara að tala um jarðgöngin.