133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[12:45]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanni fyrir málefnalega ræðu. Ég heyri ekki betur en að skoðanir hennar falli í öllum aðalatriðum að þeim meginmarkmiðum sem ég set fram í þessari áætlun sem gerir ráð fyrir því að efla byggðirnar í landinu og bæta hag okkar með ódýrum og umhverfisvænum samgöngum.

Það voru nokkur atriði sem ég vildi nefna sérstaklega vegna þess sem kom fram. Í fyrsta lagi er í samgönguáætluninni sérstök fjárveiting upp á 800 millj. til þess að hefja framkvæmdir við jarðgöng við Öskjuhlíð á þriðja tímabili. Þetta er mál sem þarf langan aðdraganda og við teljum eðlilegt að það sé gert ráð fyrir því.

Í annan stað vil ég nefna að við gerum ráð fyrir því að bjóða út jarðgöngin til Neskaupstaðar á árinu 2009, sem sagt á fyrsta tímabili áætlunarinnar. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er geysilega mikilvæg framkvæmd til þess að styrkja atvinnusvæðið í kringum álverið og í Fjarðabyggðinni, þessari mjög svo vaxandi og blómlegu byggð sem nýtur nú ávaxtanna af ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu á þessu svæði.

Í þriðja lagi varðandi göng vil ég nefna það sérstaklega, eins og ég nefndi áður, að Sundagöngin eru hugsanlegur möguleiki. Sundabrautin er fullfjármögnuð í áætluninni. Það eru einir 20 milljarðar kr. í áætluninni þannig að valkostirnir verða fyrir hendi þegar búið er að taka ákvörðun um hvaða leið verður valin. Ég tek undir það með hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að það er verkefni með sama hætti og að tengja Norður- og Suðurfirði Vestfjarða sem við eigum að leggja ríka áherslu á og ég fagna afstöðu hennar til þeirra mála.