133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[12:51]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. samgönguráðherra sagði eins og rétt er að við hefðum á undanförnum árum verið í einu mesta framkvæmdatímabili sem hér hefur verið um langt skeið og að menn hefðu þurft að hægja á í nafni stöðugleikans. Það sagði hæstv. ráðherra, og að það hefðu þeir gert. Hann sagði líka að þessar aðgerðir hefðu borið árangur. Það er mikið öfugmæli, hæstv. ráðherra, að þær aðgerðir hafi borið árangur. Hér er auðvitað enginn stöðugleiki. Þessi niðurskurður á framkvæmdum um 4 milljarða á kjörtímabilinu í vegamálum í heildina og þessi niðurskurður um 1,1 milljarð á síðasta ári á Norðausturlandi og Norðvesturlandi var eins og krækiber í helvíti, sú aðgerð, og kom bara niður á svæðum (Gripið fram í: Ekki gott …) sem áttu enga aðild að þessari miklu uppbyggingu sem hér hefur verið, og hefur í rauninni verið að blæða út á undanförnum árum. Þarna báru menn niður.

Svo koma menn hér og segja: Það bar árangur. Jú, það bar þann árangur, ef menn vilja kalla það árangur, að þessi svæði búa enn við samgöngur sem eru engan veginn boðlegar í nútímasamfélagi.

Ráðherrann segir að nú renni upp nýr tími. Nýr tími rennur ekki upp ef menn ætla að halda áfram eins og boðað hefur verið af hálfu þessarar ríkisstjórnar í stóriðju- og virkjunarmálunum vegna þess að þó að Kárahnjúkavirkjun og álver á Austurlandi hafi verið stór aðgerð eru gríðarlegar framkvæmdir fram undan með stækkun á álverinu í Hafnarfirði, næstum þrefaldri, og uppbyggingu í Helguvík og þeim virkjunum sem því tengjast. Og það er aftur suðvesturhornið. Ekki verður það til hagsbóta fyrir þau byggðarlög sem hafa búið við neikvæðan hagvöxt á undanförnum árum og búa við versta samgöngukerfi í landinu.

Það er ekki að renna upp nýr tími ef þessi ríkisstjórn situr. Það þarf aðra ríkisstjórn til þess að hann renni upp.