133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

rannsókn á bankakostnaði og samkeppnishindrunum.

[13:34]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hreyfa við mjög þörfu og mikilvægu máli. Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið eru sjálfstæðar stofnanir og óháðar pólitískum afskiptum. Viðskiptaráðherra hefur þannig enga slíka aðkomu að þeim að hann geti beint til þeirra tilmælum eða fyrirmælum, og reyndar treysti ég Samkeppniseftirlitinu til að sjá um að framfylgja samkeppnislögum. Nýleg athugun norrænna samkeppniseftirlita á viðskiptabönkum á Norðurlöndum fjallar einmitt um fyrirspurnarefni hv. þingmanns að hluta til. Þessi athugun kom í ágúst síðastliðnum og þar er margt kunnuglegt. Samkvæmt þeirri athugun er reyndar full ástæða til að vera vel á verði í þessum efnum varðandi starfsemi viðskiptabankanna. Samkeppniseftirlitið er einmitt um þessar mundir í tengslum við bankana út af þessum málum. Ég mun fylgjast með þessu áfanga fyrir áfanga framvegis sem hingað til enda þótt ég telji ekki ástæðu til lagainngripa á þessu stigi. (Gripið fram í.)

Samkeppniseftirlitið hefur ýmsa möguleika á því að fylgja ákvörðunum sínum eftir. Á Alþingi liggja nú einmitt frumvörp til laga um styrkingu og eflingu heimilda, bæði Samkeppniseftirlitsins og Fjármálaeftirlitsins, til að leggja á stjórnvaldssektir og fylgja málum betur eftir.

Það hefur reyndar tekið mörg ár að þróa hug- og vélbúnað vegna greiðslukerfisins. Mikill kostnaður er því samfara og ekki óeðlilegt að þeir sem hafa lagt í þann kostnað vilji fá hann endurgreiddan ef nýir aðilar hyggjast nýta sér fjárfestinguna. Í áðurnefndri norrænni athugun koma fram beinar ábendingar og beinar tillögur um þau atriði sem hv. þingmaður nefnir í spurningu sinni og það er reyndar í vinnslu á vegum Samkeppniseftirlitsins.

Ég mun áfram fylgjast með þessu en eins og ég sagði áðan tel ég ekki forsendur til inngripa með lagabreytingum á þessu stigi enn sem komið er.

Lög um stimpilgjöld heyra undir fjármálaráðherra. Á undanförnum árum hefur oft verið rætt um að álagning stimpilgjalda sé tímaskekkja. Fyrirtæki á fjármálamarkaði hafa bent á að álagning þeirra skekki samkeppnisstöðu og auki lánakostnað. Neytendur hafa bent á ósanngirni í því að þurfa að greiða stimpilgjöld við skuldbreytingu eða flutning láns. Ég tek undir það að full þörf er á að skoða það heildstætt hvort ekki beri að afnema þennan skatt.

Í lögum um vexti og verðtryggingu er mælt fyrir um það að Seðlabankinn ákveði og birti dráttarvexti. Dráttarvextir skiptast í grunn- og vanefndaálag sem kunnugt er. Þau ákvæði voru sett árið 2001. Ég tel alls ekki óeðlilegt að hugað verði að þeim ákvæðum og þau borin saman við sambærileg ákvæði í þeim ríkjum sem búa við svipaða þenslu og eftirspurn eftir lánsfé og hér er og skoðuð reynsla og þróun þeirra á síðustu árum.

Bankar afla fjár til útlána á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Lán þessi eru til skamms eða meðallangs tíma. Útlán banka eru hins vegar mörg til mun lengri tíma. Það er síðan verkefni útlána- og áhættustýringar hjá hverjum banka fyrir sig að tryggja að þeir eigi fyrir skuldbindingum sínum. Uppgreiðslugjöld eiga rætur í þessu. Fyrirspurn hv. þingmanns lýtur væntanlega að annarri hlið málsins, þ.e. að hlutverki uppgreiðslugjalda sem samkeppnishindrunar með því að hindra neytendur frá því að skipta um viðskiptabanka með auknum kostnaði. Í áðurnefndri samnorrænni könnun frá því í fyrra er einmitt bent á þetta og ýmis fleiri atriði sem telja verður samkeppnishindranir af hálfu viðskiptabankanna. Þessar ábendingar eru einnig til frekari vinnslu og skoðunar í Samkeppniseftirlitinu um þessar mundir.

Við munum áfram kappkosta að fylgjast með og undirbúa eftir atvikum reglur eða lagafrumvörp eftir því sem þessum málum vindur fram, alveg sérstaklega ef það kemur í ljós sem hv. þingmaður nefndi, að viðskiptabankarnir séu tregir eða láti undir höfuð leggjast að bregðast við ábendingum Samkeppniseftirlitsins.