133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

rannsókn á bankakostnaði og samkeppnishindrunum.

[13:39]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að efna til þessarar mikilvægu umræðu. Ástæða er til að horfa til þess að á sama tíma og bankarnir guma af meiri gróða, meiri hagnaði en dæmi eru um í Íslandssögunni hefur bankaokur á Íslandi aldrei verið meira en nú, hvort sem horft er til vaxta, vaxtamunar eða þjónustugjalda. Þá ber einnig að hafa í huga að af hagnaði bankanna er sennilega um helmingurinn af viðskiptum hér innan lands. Þessi hagnaður er á kostnað íslenskra neytenda. Hér erum við upplýst um það að hæstv. ríkisstjórn fylgist með gangi mála — en ætli ekkert að gera. Við höfum jú stofnanir, við höfum Samkeppniseftirlit og við höfum Fjármálaeftirlit, en þar er látið við sitja.

Þegar bankarnir voru einkavæddir — góðgjarnir menn tala gjarnan um að þeir hafi verið seldir á undirverði, þjóðin hefur fengið að sjá að þeir voru í reynd gefnir nýjum eigendum sem hafa makað krókinn á þeim og eru að fá geysileg völd yfir íslensku samfélagi, stýra orðið hluta af heilbrigðisþjónustunni, bankastjórar koma hér fram sem móðir Teresa, líkna og lækna, þeir eru farnir að stjórna menningar- og listalífi þjóðarinnar — var það ekki þetta sem átti að gera. Það átti ekki að efla auðvaldið á Íslandi, því að þetta er auðvald, vald auðsins, nei, það átti að færa neytendum hagsbætur í lægri vöxtum og (Forseti hringir.) lægri þjónustugjöldum. Og nú erum við að verða vitni að því að okrið hefur aldrei verið (Forseti hringir.) meira en nú.