133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

rannsókn á bankakostnaði og samkeppnishindrunum.

[13:46]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Ég fagna þessari tímabæru umræðu varðandi bankastarfsemi og samkeppnishindranir. Almenningur þarf að fá skýringar á þeim risavaxna hagnaði sem bankastarfsemi á Íslandi skilar af sér, að hve miklu leyti er þetta gróði sem hlýst af viðskiptum við óbreytta viðskiptavini eða eru bankarnir að hagnast og maka krókinn með því að fara ofan í vasa almennings í krafti, gjalda, þóknana, kostnaðar og/eða vaxta?

Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins sem hér hefur verið vísað til er bent á fjölmörg atriði sem renna stoðum undir óeðlilegt ástand á bankamarkaði. Í þessu felast ekki ásakanir um refsiverða háttsemi en það er nauðsynlegt að samfélagið sé meðvitað um þessa starfsemi og að bönkunum sé veitt aðhald þannig að hlutur neytenda sé ekki fyrir borð borinn.

Um leið og við fögnum auknu ríkidæmi og góðum rekstri banka og eigenda þeirra verðum við að horfast í augu við þá staðreynd að þjóðin er þolendur en ekki gerendur. Það er skylda alþingismanna að standa vörð um hagsmuni þessa fólks, setja lög og halda uppi eftirliti sem verndar borgarana gegn samkeppnisbrotum, okri og hvers konar misnotkun á völdum og aðstöðu. Það er til skammar að á sama tíma og beislinu er sleppt framan af fjármála- og bankastarfsemi skuli hvarvetna, hvert sem litið er sitja fólk sem í raun og veru ber á herðum sér þá kvöð að okrað sé á því og kreistur út úr því kostnaður eins, sem skapar arð annars. Við eigum að vera málsvarar þeirra sem búa við slík kjör og það er fullkomið ábyrgðarleysi ef hæstv. ráðherra lætur ekki hendur standa fram úr ermum í þessu máli.