133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

rannsókn á bankakostnaði og samkeppnishindrunum.

[13:48]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að hefja þessar umræður og hæstv. ráðherra Jóni Sigurðssyni fyrir svör hans. Eins og aðrir hafa komið inn á hafa bankarnir nýverið birt afkomutölur sínar og eins og kunnugt er er hagnaður fjögurra banka, Straums, Burðaráss, stóru viðskiptabankanna þriggja, Landsbanka, Glitnis og Kaupþings, samanlagður um 209 milljarðar kr. Til að setja þetta aðeins í samhengi er þetta um 50 milljörðum hærri fjárhæð en sem nemur útgjöldum alls heilbrigðis- og tryggingakerfis íslenska ríkisins.

Að sama skapi nemur tekjuskattur sem þessir fjórir bankar greiða í ríkissjóð vegna ársins 2006 um 35 milljörðum kr. Og auðvitað fögnum við því að íslenskum fyrirtækjum skuli ganga vel og þeim vegni vel og útrásin gangi svo vel sem raun ber vitni. Hagnaður fyrirtækjanna skilar sér í auknum tekjum til ríkissjóðs sem stendur svo undir stoðum samfélagsins, velferðarkerfinu og menntakerfinu.

Að sama skapi fylgir velgengninni mikil ábyrgð og að mínu mati bera fyrirtæki samfélagslega ábyrgð. Sum þeirra höndla hana vel en önnur verr. Ég er þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt að íslenskir neytendur njóti velgengni fyrirtækjanna betur en þeir gera í dag og afrakstur útrásarinnar skili sér í vasa neytendanna í formi lægri þjónustugjalda. Búið er að útbúa íslensku viðskiptalífi umhverfi sem gerir því kleift að blómstra og njóta ávaxtanna. Það er vel og það er öllu íslensku samfélagi mikilvægt. En gæta verður hófs og jafnvægis og nú er komið að íslenskum neytendum.

Ég er sammála 90% Íslendinga sem telja að það eigi að reka áfram sterkan Íbúðalánasjóð sem getur veitt bönkunum visst aðhald á íbúðalánamarkaði. Hann er nauðsynlegur og ég tel að veita þurfi Íbúðalánasjóði auknar heimildir til að geta keppt við viðskiptabankana og þar með stuðlað að aukinni samkeppni íslenskum fjölskyldum til hagsbóta. Við verðum að fara að stíga það skref að afnema stimpilgjöldin og fella niður eða draga úr uppgreiðslugjöldum bankanna sem hreinlega virka gegn samkeppni. Við verðum að fara að auka aftur lánshlutfall Íbúðalánasjóðs í 90% lán. Íbúðalánasjóður er rekinn á félagslegum forsendum án hagnaðarsjónarmiða sem skilað hefur fjölskyldum í landinu betri kjörum á íbúðalánum. Hann hefur verið (Forseti hringir.) það skjól sem bankarnir hafa ekki í öllum tilvikum getað veitt. (Forseti hringir.) Við framsóknarmenn munum standa vörð um Íbúðalánasjóð enda er hann neytendum mikilvægur.