133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[14:17]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst vegna umfjöllunar hv. þingmanns um samráð. Farið er að lögum við undirbúning samgönguáætlunar. Þar er hvergi gert ráð fyrir því að stjórnarandstaðan eigi sérstakan fulltrúa í samgönguráði. Alþingi hefur samþykkt lög um gerð samgönguáætlunar og henni er algerlega fylgt eftir. Í aðdraganda þessa, að langtímaáætlunin var gerð og umhverfismatsskýrsla vegna langtímaáætlunar, var auglýst eftir athugasemdum. Ég minnist þess ekki að fulltrúar Vinstri grænna hafi gert athugasemdir eða komið með ábendingar gegnum þá leið sem var fær og gert ráð fyrir. Stjórnarandstaðan hafði þar fulla möguleika á að koma sjónarmiðum sínum að en gerði það ekki..

Hvað varðar almenningssamgöngur eru í samgönguáætluninni háar fjárhæðir til að sinna almenningssamgöngum. Ferjusiglingar, þingmenn þekkja það, styrkir til flugsins, styrkir til sérleyfishafa, þ.e. rútuferðunum milli landshluta. Allt er það stuðningur og skýr markmið okkar um þjónustu við almenningssamgöngur.

Umfjöllun um flutningskostnað okkar er fjarri lagi. Nánast allar aðgerðir okkar í uppbyggingu vegakerfisins, stytting leiða og endurbætur á vegakerfinu, snúast um að lækka flutningskostnað. Þingmaðurinn setur þetta því í mjög sérkennilegt samhengi. Ég ætla ekki að ræða frekar við hann um sérstakan áhuga hans á niðurskurði. Við erum að tala um framtíðina sem er vörðuð með samgönguáætluninni.