133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[14:20]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ráð mitt til hæstv. samgönguráðherra er að tala mjög varlega um eigin frammistöðu og um hvernig staðið hafi verið við samgönguáætlun. Niðurskurðurinn er staðreynd þótt við vildum öll að hann hefði ekki orðið. Ég er sammála ráðherra um það og hygg að hann dauðsjái eftir því og skammist sín fyrir niðurskurð í vegamálum á undanförnum árum. Hins vegar held ég að þjóðin treysti ekki ráðherranum frekar til þess á næstu árum en hinum síðustu til að standa við þær áætlanir sem fram hafa verið lagðar. Ég vona þjóðarinnar vegna að tímabil núverandi samgönguráðherra líði undir lok í vor og nýr taki við.

Varðandi samráð, þótt ekki sé mælt fyrir um það í lögum, þá er þetta viðamikill málaflokkur sem lagður er fram á síðustu dögum þings, áætlun til margra ára og lifir vart tæpur mánuður af þingi. Stjórnarandstöðunni eða öðrum sem vildu koma að málinu varðandi þetta hafa ekki svo mikinn tíma til þess. Ég átel þessi vinnubrögð og tel að ráðherra hefði getað gert betur.

Hins vegar væri fróðlegt að heyra frá ráðherranum, eftir að skorið var niður vegna stóriðjuframkvæmda á síðastliðnum árum: Nú eru áfram miklar stóriðjuframkvæmdir fyrirhugaðar. Hvernig ætli það fari saman að leggja í stækkun álversins í Straumsvík og þrjár virkjanir í Þjórsá samtímis því að ætla að leggja fram stórfé í vegabætur á Suðurlandi? Ég sé ekki að neitt hafi breyst í þeim efnum frá því í fyrra eða hittiðfyrra. Það kom fram hjá þeim efnahagssérfræðingum sem lögðu mat á fjárlagatillögur fyrir þetta ár og næstu ár að haldi ríkisstjórnin áfram stóriðjuæði sínu verður ekkert svigrúm til neins átaks í vegamálum. Það lögðu allir áherslu á og ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra skilji það.