133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[14:42]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Kristjánssyni fyrir svarið við andsvari mínu hvað þetta varðar vegna þess að mér finnst ég heyra tón sem ég get mjög vel sætt mig við, að hv. þingmaður var óánægður með það bann, hann notaði það orð, bann á þessa framkvæmd sem var tilraun til að slá á þenslu á svæði þar sem engin þensla var.

Þetta var auðvitað arfavitlaus aðgerð, flausturslega unnin og ráðherrarnir sem stóðu að henni, bæði fyrrverandi forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson og núverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde, vissu í raun og veru ekkert hvað þeir voru að skera niður.

Sú staðreynd að 1.150 millj. kr. niðurskurður á svæði þar sem sennilega hefðu ekki meira en 300 millj. kr. komið til framkvæmda á síðasta ári var í mesta lagi nothæf sem brandari á árshátíð hagfræðinga.

Enda var það þannig að það hafði ekki mikið breyst í efnahagslífinu þegar hæstv. forsætisráðherra tjáði okkur í stefnuræðu sinni að það hefði dregið svo úr þenslu að nú væri hægt að taka þetta framkvæmdabann til baka.

En, virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í annað. Í yfirgripsmikilli og góðri ræðu sinni fjallaði hann um og lýsti yfir áhuga og ánægju með fyrirhugaða lengingu flugbrautanna á Akureyri og Egilsstöðum.

Nú höfum við barist saman fyrir þessu. Ég get sagt fyrir mitt leyti að ég er ekki ánægður með að lenging flugbrautar á Akureyri verði ekki lokið fyrr en á haustdögum 2009, eða flugvallarins á Egilsstöðum einhvern tíma á öðru eða jafnvel þriðja tímabili.

Þá vil ég geta þess líka — til að draga fram mikilvægi Akureyrarflugvallar vegna millilandaflugs, þar á meðal fraktflugs sem á að hefjast eftir nokkrar vikur — að það þarf líka að stækka flugstöðina. En um það er ekkert rætt.

Spurning mín til hv. þingmanns er þessi: Er hv. þingmaður virkilega ánægður með þær tímasetningar sem þarna eru inni miðað við hve brýn framkvæmd þetta er og miðað við það að þessar stuttu brautir eru beinlínis samkeppnishindrandi fyrir atvinnulífið á Akureyri og í Eyjafirði og á Egilsstöðum? (Forseti hringir.)