133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[14:55]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Þessi tillaga til þingsályktunar, um samgönguáætlun til næstu tólf ára, er viðamikil að vöxtum eins og skjalið ber með sér og innihaldið reyndar líka. Helstu stærðir í því eru að gert er ráð fyrir að á næstu tólf árum verði nærri því 400 milljörðum kr. varið til samgöngumála, til vega, hafna og flugmála. Það er aukning frá því sem var ákveðið í síðustu tólf ára áætlun um liðlega fjórðung að raungildi. Það kemur fram í skjalinu og í máli hæstv. ráðherra að um 80 milljarða kr. hafi vantað til að hægt hafi verið að sinna öllum brýnustu þörfum eða óskum sem dregnar voru saman í undirbúningi málsins. Menn ná því ekki utan um að fjármagna allar óskirnar á næstu tólf árum með þessari áætlun. Fjárhæðirnar eru, þrátt fyrir að tölurnar séu háar, ekki eins stórar og tilefni er til að ætla. Á hverju ári er ekki varið nema tæplega 2,5% af vergri landsframleiðslu til samgöngumála, til vegamála einna ekki nema um 2%.

Virðulegi forseti. Ég er reiðubúinn að gera hlé á máli mínu ef ég trufla hv. þingmenn sem eru hér á fundi úti í sal.

(Forseti (BÁ): Hv. þingmenn eru beðnir um að gefa ræðumanni tækifæri til þess að flytja mál sitt.)

Þakka þér fyrir, virðulegi forseti.

Fjárhæðirnar til samgöngumála eru kannski ekki jafnháar og ætla mætti af framsetningu í máli hæstv. ráðherra. Það er ekki mikið að setja um 2% af landsframleiðslu til samgöngumála í heild sinni á hverju ári.

Ég held að við ættum að endurskoða fjárhagslegu markmiðin. Þarfirnar í samgöngumálum hafa farið mjög vaxandi jafnvel þó að menn hafi á síðustu tveimur áratugum, skulum við segja, náð góðum áföngum. Umtalsverðar framfarir hafa orðið á sviði samgangna, komið hafa fram nýjar þarfir í kjölfar tækniframfara, í kjölfar aukinnar notkunar á bílum og annað slíkt og í kjölfar nýrrar tækni í fjarskiptaheiminum. Þannig að þarfirnar koma til. Ég held að þingið ætti að setja sér það markmið að ná betur utan um það að uppfylla þær þarfir á hæfilega löngum tíma. Mér finnst kannski helst að þessari áætlun — þó ég sé ekki að setja út á hana almennt, því að flest af því sem í henni er eru þarfar framkvæmdir. Deilur standa ekki um það hvort ráðast eigi í einstakar framkvæmdir heldur hvenær og í hvaða röð.

Ég hvet menn til að skoða þingsályktunartillöguna út frá því að uppfylla betur þarfirnar en gert er í áætluninni. Ég minni á að eign landsmanna, Landssíminn, var seld og fyrir hana fengust tæplega 67 milljarðar kr. Mér finnst eðlilegt að verja öllu andvirði þeirrar eignar til samgöngumála þannig að ríkið breyti einni eign í samgöngumálum í aðrar eignir í samgöngumálum. Það þýðir með öðrum orðum að fjármagn til þessarar áætlunar mundi aukast úr 15 milljörðum af þessum 67 sem varið er til áætlunarinnar upp í 67 milljarða, það mundi aukast um 52 milljarða kr.

Ég tel að menn ættu að setja sér það sem pólitískt markmið á næsta kjörtímabili að verja því fé sem fékkst fyrir sölu Landssímans til samgöngumála á næstu fjórum árum og bæta því við það fjármagn sem er í þessari tillögu. Það munar heldur betur um það að geta aukið fjármagnið um 50 milljarða kr. á næstu fjórum árum frá því sem gert er ráð fyrir. Ég held að það sé vel gerlegt. Ég held að það sé eðlilegt því að mínu viti var það ekki sérstaklega tilgangur landsmanna, með því að eiga, byggja upp, reka og síðar selja Landssímann, að safna bankainnstæðum. Þjóðareignin á að fara til þarfa þjóðarinnar á samgöngusviðinu og það er eðlilegast að nýta peningana í því skyni en ekki sem innstæðu í Seðlabankanum.

Í öðru lagi tel ég að það eigi að bæta í þessa áætlun því sem mér finnst standa út af í samgöngumálum og það eru fjarskiptin, netsamskiptin og símasamskiptin. Ég tel að ríkið eigi að hafa uppbyggingu þeirra þjóðvega með höndum, rétt eins og veganna sjálfra og gera ráð fyrir í áætlun sinni að byggja þar upp. Sú leið hefur verið valin að fela það í megindráttum einkaaðilum þannig að ríkið hefur þetta ekki á sinni könnu og semur ekki sérstaka áætlun um að byggja upp þessa þjóðvegi eins og hina. Ég tel það ekki skynsamlega niðurstöðu. Ég hef verið ósammála henni frá því að ákveðið var að selja Símann með grunnnetinu. Ég tel því að menn ættu að setja sér það sem pólitískt markmið að fjarskiptanetið verði hluti af grunnnetinu og ríkið hafi forgöngu um að byggja það upp og reka það, eitt sér eða í samstarfi við aðra.

Í þriðja lagi vil ég nefna, virðulegi forseti, að ég er tilbúinn til að standa að því að auka það fjármagn úr ríkissjóði sem menn setja á ári hverju til samgöngumála — 2% af vergri landsframleiðslu er ekki há fjárhæð. Ef hún er brotin niður í framkvæmdirnar einar og sér er fjárhæðin enn lægri. Okkur miðar hægt að vinna upp listann sem fram undan er af óunnum verkefnum vegna þess að við setjum lága fjárhæð á hverju ári til fjárfestinga, til uppbyggingar í vegakerfinu. Sú fjárhæð þarf að hækka verulega til að menn sæki fram á meiri hraða en gert er ráð fyrir. Ég er tilbúinn til að menn setji sér sem markmið að setja t.d. 3% af vergri landsframleiðslu á ári hverju til samgöngumála.

Ef menn gerðu það, ef það fjármagn sem fékkst af sölu Landssímans væri notað að fullu til samgöngumála, ef menn ykju árlegt framlag úr ríkissjóði eða af skattheimtu, það kemur svo sem í sama stað niður, — og ég vek athygli á því að skattheimta á umferðina er miklu meiri en það sem rennur til samgöngumála — upp í 3% af vergri landsframleiðslu næðu menn feiknalega góðum árangri á næstu árum. Ég hvet menn til að hugsa það í mikilli alvöru að gera þá breytingu á þessari samgönguáætlun sem ég er að tala um.

Ég vil svo, virðulegi forseti, staldra aðeins við ákvæði samgönguáætlunar um aðra fjáröflun. Ég er ekki algerlega andvígur því að menn skoði það að fjármagna einstakar framkvæmdir, sérstaklega þar sem umferð er mikil og þar sem gjaldtaka á umferðina yrði þar af leiðandi mjög lítil í hvert skipti af hverjum vegfaranda. Forsenda þess að ráðist verði í slíkar lausnir er að mínu viti að skattlagning og gjaldtaka af umferðinni verði miklu minni en nú er. Ég tel ekki forsvaranlegt að bæta sérstakri fjáröflun til viðbótar við þá skattlagningu sem nú er á umferðinni þar sem árlegar tekjur ríkissjóðs af bílum, bílaeign, bensínkaupum og öðru slíku er langt umfram það sem rennur til samgöngumála og er í raun og veru að mestu leyti almenn skattlagning. Á meðan skattlagningin er svona langt umfram það sem rennur til samgöngumála mundi ég ekki hvetja til þess að standa að annarri fjáröflun með þeim hætti. En almennt séð finnst mér ekki ástæða til að útiloka það að öllu leyti í náinni framtíð.

Virðulegi forseti. Svo ég nefni eina sérstaka framkvæmd, sem er samgöngumiðstöðin í Vatnsmýrinni, vil ég taka fram að ég er fylgjandi því að ráðist verði í hana. Ég sé hins vegar enga ástæðu til að hún verði fjármögnuð af einkaaðilum. Ég tel að ríkið eigi að byggja þessa byggingu sjálft, eiga hana og reka. Það er örugglega dýrara fyrir ríkið að láta aðra aðila fjármagna hana því ríkið fær betri vexti en nokkur annar í þessu þjóðfélagi. Ríkið hefur efnahagslega stöðu til að ráðast í svona litla framkvæmd. Ég held að það sé einfaldlega fjárhagslega óhagkvæmt að fela einkaaðilum að byggja, eiga og reka þessa framkvæmd sem yrði svo í meira og minna lagi annaðhvort velt yfir á ríkissjóð eða notendur þessara mannvirkja. En ég er samþykkur því að ráðast í þessa miðstöð og byggja upp Vatnsmýrina sem áframhaldandi miðstöð innanlandsflugs á Íslandi.

Þá vil ég, virðulegi forseti, hvetja þingmenn til að gæta hófs í ákvörðunum og kröfugerð um einstakar framkvæmdir. Þingmenn eiga að sjálfsögðu að fara fram á að framkvæmdir leysi þann vanda sem við er að glíma og að landsmenn fái þar góða lausn eða góðan veg. En það á ekki að gera kröfur til þess að verja meiru fé til slíkra mála en nauðsynlegt er. Ég tel að svo hafi t.d. verið gert í sambandi við Héðinsfjarðargöng. Kostnaðurinn við þá framkvæmd er að mínu viti tvisvar sinnum hærri en hann þurfti að vera. En jarðgöng frá Siglufirði í Fljót og uppbygging vegar á Lágheiði hefði verið mjög góð lausn fyrir staðinn og svæðið. Ávinningurinn af því að fara um Héðinsfjörð er hverfandi samanborið við þann kostnað sem menn leggja út fyrir því.

Í öðru lagi má nefna að kröfur um breiða vegi langt umfram það sem umferðin kallar á eru líka kröfur um að leggja út í dýrari lausnir en nauðsynlegt er. Þar má t.d. nefna lausnina um Reykjanesbrautina, sem er auðvitað glæsileg framkvæmd, en umferðarþunginn er ekki meiri en svo, miðað við almenna staðla, að 1+1 vegur dugar almennt og 1+2 vegur með aðskildum akreinum væri mjög góð lausn. Kostnaður við að ráðast í þá lausn sem varð niðurstaðan felur það í sér að fjármunir eru teknir úr öðrum verkefnum og það hægir á ýmsum þörfum endurbótum.

Ég vil einnig hvetja menn til að huga að Vesturlandsvegi og Suðurlandsbraut, að menn gæti hófs í kröfugerð um úrbætur þar. Menn eiga auðvitað að krefjast þess að öryggi verði bætt og akstursleiðir aðskildar og annað slíkt sem þarf til að ná ásættanlegu og góðu öryggi en það á ekki að mínu viti að ráðast í framkvæmdir umfram þörf í þeim efnum. Það er mikill munur á því hvort menn ráðast í 2+1 veg eða 2+2 veg. Það felast margir milljarðar í þeim umframkostnaði. Ráðist menn í það verður þeim fjármunum ekki ráðstafað til annarra brýnna verkefna sem bíða í samgöngumálum og munu þar af leiðandi þurfa að bíða árum saman.

Ég bendi t.d. á Suðurlandsveginn. Umferðin þar er um 6.000 bílar á sólarhring. Almennir staðlar segja að 1+1 vegur eigi að geta annað 10–12 þúsund bíla umferð á sólarhring. Og 1+2 vegur geti annað 15–20 þúsund bíla umferð á sólarhring eða þrisvar sinnum meira en nú er. Aðstæður eru vissulega sérstakar hér á landi. Það gerir það að verkum að menn þurfa að skoða lausnirnar í því ljósi. Það leiðir trúlega til þess að rétt er að hafa veginn breiðari en almennt mundi verða og aðskilja akstursstefnur. Þá eru slíkar lausnir góðar og miklu ódýrari en 2+2 vegur. Menn verða að minnsta kosti að hafa góð rök fyrir því að setja fram kröfur um margra milljarða kr. útgjöld umfram það sem þarf. Ef menn gæta þess í framkvæmdum getum við nýtt peningana betur og náð meiri árangri á fleiri stöðum.

Virðulegi forseti. Nú er tíma mínum lokið og átti ég þó býsna mikið eftir enn. Ég ætla aðeins að fara yfir efnahagsmálin. Kannski ég noti þessar örfáu sekúndur til að minna á að þessi áætlun þarf auðvitað að falla inn í almenna efnahagsstjórn landsmála. Ég sé hins vegar ekki, virðulegi forseti, hvernig á að vera hægt að samræma áform (Forseti hringir.) um 450 milljarða kr. framkvæmdir í stóriðjumálum og hin miklu samgönguáform sem ég minntist á áðan.