133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[15:13]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já. Eins og þetta blasir við mér næstu sjö árin, ef ég legg saman þá samgönguáætlun sem hér er til umræðu, árin 2007–2014, og síðan áform í stóriðjuuppbyggingu, sem ég álít að liggi nokkuð ljós fyrir af hálfu stjórnvalda, sé ég ekki hvernig þetta nær að ganga saman. Ég sé ekki að hægt verði að standa við samgönguáætlunina ef stóriðjuáformin ganga eftir á þeim hraða sem til stendur að verði á næstu árum.

Það eru framkvæmdir í virkjunum og iðjuverum upp á 450 milljarða kr. á næstu sjö árum. Í samgönguáætluninni eru framkvæmdir upp á 160 milljarða kr. sýnist mér á næstu sjö árum. Það einfaldlega gengur ekki saman miðað við jafnvægi í efnahagsmálum. Verði hvort tveggja keyrt af fullum þrótti verður útkoman einfaldlega verðbólga. Íslensk heimili eru þau skuldsettustu í heimi og þola ekki verðbólgu. Það kostar íslensk heimili milljarða á milljarða ofan á hverju einasta ári ef verðbólgan fer yfir þau mörk sem menn settu sér á sínum tíma, 2,5% á ári.

Menn geta ekki lagt það á almenning að bera byrðarnar af verðbólgunni. Því er eðlilegt að fresta eða raða niður framkvæmdum, hvort sem það er í samgöngu- eða stóriðjumálum, þannig að menn geti haldið jafnvægi í efnahagslífinu. Ég er út af fyrir sig sammála þeim sjónarmiðum, sem menn gripu til í sumar, að markmiðið um að halda verðbólgunni í skefjum sé ofar markmiðinu um einstakar framkvæmdir. Það má svo deila um það hvaða framkvæmdir urðu fyrir barðinu á frestuninni.