133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[15:49]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að 2+2 vegur hafi komið skýrt fram í máli samgönguráðherra. Það kemur skýrt fram í áætluninni að stefnt sé að því. Einnig er stefnt að því að breikka vegi vestur og norður um land og gera þá öruggari. Þetta eru skynsamleg markmið og á að leggja í þessar framkvæmdir vegna umferðaröryggismála og ekki síður til að vegirnir geti borið þá umferð sem um þá fer.

Varðandi aukin framlög til vegamála þá get ég tekið undir þær hugmyndir. Ég tel að það væri gott markmið að stefna að því að auka þau framlög. En ég minni hins vegar á að aukning til vegamála hefur verið mjög mikil. Hæstv. samgönguráðherra fór vel yfir það í ræðu sinni hvernig því hefur verið háttað og hversu mikil aukning hefur orðið þar á síðustu árum undir stjórn sjálfstæðismanna.

Auk þessa hefur sérstök fjárveiting farið til vegamála vegna sölu Símans, með beinum framlögum úr ríkissjóði til vegamála og einnig til sérstakra framkvæmda í jarðgangamálum. Það sýnir að viljinn er mjög mikill til að gera vel í þessum málum enda sýnir það sig að slíkar framkvæmdir hafa mjög góð áhrif á byggð og efnahagsmál í landinu.