133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[16:11]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Enn sem komið er er engin samkeppnishindrun á ferðinni. Í samgönguáætluninni gerum við ráð fyrir því að lengja flugbrautina á Akureyri. Slík framkvæmd tekur nokkurn tíma, bæði hvað varðar undirbúning og framkvæmdir. Það getur vel verið að það takist að ljúka þessu öllu fyrri hluta ársins 2009 og ég teldi að þá væri bara býsna vel að verki staðið.

Aðalatriði málsins er að ég hef markað þá stefnu í samgönguáætluninni að við eigum að búa svo um hnúta að flugvellirnir tveir sem eru varaflugvellir á Norður- og Austurlandi, þ.e. Egilsstaðaflugvöllur og Akureyrarflugvöllur, eigi að vera með flugbrautir, öryggisbúnað og aðflugsbúnað af þeirri gerð og stærð að hægt sé að sinna varaflugvallarhlutverkinu sem allra best. Ég tala nú ekki um ef við bætist að millilandaflug mundi aukast frá þeim flugvöllum og þannig skjóta enn sterkari stoðum undir þá fjárfestingu, sem ég tel hið besta mál og afar mikilvægt, bæði fyrir atvinnuvegina sem vilja fara út í beina flutninga og ekki síður fyrir ferðaþjónustuna sem hefur áhuga á að hafa þessa kosti um millilandaflug frá þessum flugvöllum.

Ég sé því ekki annað en að hv. þm. Kristján L. Möller sé að mæla fyrir sérstökum stuðningi við þá stefnu sem ég boða í samgönguáætluninni og (Forseti hringir.) ég hlýt að fagna því, en forsendurnar þurfa alltaf að vera klárar.