133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[16:34]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel ekki að pólitískt samráð um hlutina þurfi á nokkurn hátt að vera á kostnað þess að hönd í hönd og hlið við hlið sé unnið faglega við undirbúningsstarf að áætlunargerð og vinnu af þessu tagi. Ég tel það einmitt kost ef hægt er að hafa það þannig að menn vinni þetta hlið við hlið. Ef það væri hins vegar þannig að síðan stæði til að láta okkur stjórnmálamennina, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, taka við verkinu og setja okkar mark á það, þá væri það kannski atriði út af fyrir sig. En er líklegt að það standi til á örfáum vikum sem eftir eru að þingið taki sig til og geri einhverjar veigamiklar áherslubreytingar. Ég tek hæstv. ráðherra á orðinu ef þetta ber að skilja þannig, að þess megi vænta að vel verði tekið í hugmyndir okkar um breytingar í þessum efnum. En ætli veruleikinn sé ekki sá á mannamáli að búið sé að sjóða og hrossakaupa þetta saman í stjórnarherbúðunum, og fæðingin var víst býsna erfið síðustu dagana og vikurnar, og ekki standi til að hrófla mikið við því. Ætli Alþingi sé ekki ætlað að taka við pakkanum utan úr bæ eins og stundum áður, því miður. Ef vegáætlun kæmi að hausti og fyrir lægi að samgöngunefnd hefði hana til umfjöllunar í nokkra mánuði, færi rækilega yfir hana, skoðaði áherslur og eftir atvikum breytti hlutum þá gæti ég sagt sem svo: Við skoðum það vinnulag.

Hvað Hvalfjarðargöng varðar þá er ég mjög stoltur af því að hafa átt frumkvæði að þeim og hafa flutt fyrsta frumvarpið og skrifað undir samninginn um þau. Menn mundu ekki mikið eftir því, sjálfstæðismenn, þegar þeir voru að taka göngin í gagnið á sínum tíma. Þau höfðu dottið af himnum ofan í fangið á sjálfstæðismönnum, en það er önnur saga. Ég held að einkafjármögnun sérverkefnis geti vel komið til greina og að mínu mati er aðeins ein hliðstæða í því sem við erum nú að tala um, það eru Vaðlaheiðargöng.