133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[16:42]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég var fyrst og fremst að benda á að að þessu leyti er fjármögnun þeirra framkvæmda sem settar eru inn í áætlunina í lausu lofti. Það er óútkljáð mál, það er óútfyllt. Umferðin borgar miklu meira en nóg í ríkissjóð, miklu meira en nóga skatta til að standa undir öllum þessum framkvæmdum og miklu meira en það ef hún héldi hærri hlut til framkvæmda. Við vitum það öll. Umferðin skilar í opinberar tekjur alveg gríðarmiklum fjármunum en ríkið hirðir það að verulegu leyti. (KÓ: Viltu hækka skatta?) Já, svo spyr hv. þingmaður: Vill þingmaðurinn hækka skatta?

Hverjir halda menn nú að borgi að lokum þó að menn fari leið lántökunnar eða veggjaldanna? Er hv. þm. Kjartan Ólafsson að halda því fram að peningarnir komi einhvers staðar annars staðar frá? Heldur hann að skotið verði saman í útlöndum fyrir vegaframkvæmdum á Íslandi og peningarnir gefnir? Heldur hann að þeir komi af himnum? Nei, við skulum ekki vera svo einföld að ræða þetta á öðrum nótum en þeim að auðvitað borga vegfarendur, umferðin og/eða skattgreiðendur þetta að lokum og enginn annar. Spurningin er þar af leiðandi einfaldlega þessi: Er þetta skynsöm leið? Er þetta hagkvæm aðferð eða er hún kannski dýrari? Er hún kannski dýrari vegna þess að einkaaðilinn ætlar að hafa arð fyrir sitt stúss og draga hann í burtu? Það er niðurstaða skýrslu Ríkisendurskoðunar að langflest mæli með því að ríkið geri þetta bara beint. Það kemur vel til greina að taka lán til að flýta framkvæmdum og borga þau svo aftur. En það mun enginn borga þetta fyrir okkur, hv. þingmaður, það er algerlega á hreinu. Umferðin og/eða skattgreiðendur munu greiða þennan kostnað með einum eða öðrum hætti fyrr eða síðar. Allt tal um annað er eins og hvert annað rugl. Hv. þingmaður verður að finna einhverjar betri aðferðir en þessar ef hann ætlar að króa mig af í umræðunni.