133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[16:44]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst hv. þingmaður fara annan hring í þessari umferð. Auðvitað vitum við það hér á hinu háa Alþingi að það eru þegnar þessa lands sem borga það sem gert er. Það er alveg augljóst mál. En ég fékk ekki svar við því hvort hv. þingmaður vill fara lántökuleiðina sem gerir það að verkum að við dreifum þeim kostnaði sem til fellur á lengri tíma, og þá gildir einu hvort ríkið tekur lánið eða hvort það er gert með öðrum leiðum. Það kann líka að vera í alútboði, það er alþekkt meðal sveitarfélaganna gagnvart byggingum og nýframkvæmdum þannig að það er alveg inni í myndinni. En ég vil fá að heyra nákvæmlega hvað þingmaðurinn meinar. Hann talar úr og í og það kalla ég hringferð hans um þetta mál. Vill hann hækka skatta á þegnum þessa lands eða hækka skatta á umferðinni? Einhvers staðar frá verða peningarnir að koma. Eða vil hann fara í lántöku, eins og stendur í áætlun? Það kemur skýrlega fram í samgönguáætluninni að um sérstaka fjármögnun sé að ræða.

Hv. þingmaður kom inn á sjóflutninga áðan. Mig langar líka að spyrja hann hvort ekki sé æskilegt og sjálfsagt hjá okkur að huga að styttingu vega milli landshluta. Heldur hann að atvinnulífinu henti að flytja ferskan fisk með skipum hringinn í kringum landið? Hvernig á nútímaatvinnulíf, sem byggist á miklum hraða, ferskleika og minni vörulager vítt og breitt um landsbyggðina, að ganga upp ef við ætlum að fara út í sjóflutninga með þær vörur? Mig langar að fá að heyra örfá orð um það atriði.