133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[17:08]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þau markmið sem við setjum okkur í samgönguáætluninni, um að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda, koma fram með þeim hætti að við stefnum að 20% minnkun á þessari losun á áætlunartímabilinu. Við ætlum að gera það með því m.a. að hafa áhrif með skattlagningu þannig að meira verði um dísilökutæki og svokallaða tvinnbíla. Við leggjum áherslu á að breytt skattlagning á umferðina, og hið sama á að gilda um siglingar, hvetji menn til að fjárfesta í vélum og ökutækjum sem losa minna af mengandi efnum. Þetta kemur skýrt fram í áætluninni og forsendunum fyrir henni. Tímasettu markmiðin eru þessi langtímamarkmið sem áætlunin felur í sér.

Við þurfum vissulega að huga vandlega að þessu. Það skiptir okkur miklu máli að við sýnum gott fordæmi og leggjum á ráðin um hvernig við getum dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda, ekki síst í samgöngugeiranum.

Ég vil aðeins vekja athygli á því að umhverfisskýrslan sem hv. þingmaður vitnaði til er að mínu mati mikið tímamótaplagg. Hún skiptir miklu máli. Ég fann það í allri vinnu við undirbúninginn og það samráð sem fór fram í gegnum netið m.a. að það skilaði sér inn í gerð samgönguáætlunar. Ég tel því að hárrétt hafi verið hjá Alþingi að samþykkja þessi lög.