133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[17:31]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil vekja athygli hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar á því að núna þegar samgönguáætlun var kynnt barst sérstök ályktun frá Fjórðungssambandi Vestfjarða þar sem fagnað var þeim áformum um samgöngubætur sem hún felur í sér. Þess vegna kemur mér þessi orðræða hv. þingmanns nokkuð á óvart satt að segja.

Jarðgöng úr Ísafirði yfir í Kollafjörð eru alveg þvert á þá stefnu sem forustumenn á Vestfjörðum hafa lagt, þ.e. að ljúka Djúpinu, byggja upp Arnkötludalsveginn, jarðgöng til Bolungarvíkur og síðan Arnarfjörður, Dýrafjörður og traust samgönguæð yfir Dynjandisheiði þannig að tenging væri á milli suður- og norðurfjarða. Ég tel því að samgönguáætlunin sé nákvæmlega í samræmi við þær óskir. Hvað framtíðin ber í skauti sér vil ég ekkert segja um á þessu stigi hvað varðar frekari jarðgöng en við verðum að gæta hófs og skapa ekki væntingar um hluti sem fyrirséð er að við munum ekki leggja í á næstunni. Þetta er nú það sem ég vildi geta um alveg sérstaklega.

Hvað varðar önnur jarðgöng, sem hv. þingmaður nefndi, þá er gert ráð fyrir að næstu skref verði rannsóknir á jarðgöngum austur á landi og síðan jarðgöng á höfuðborgarsvæðinu. Það vilja allir jarðgöng og betri vegi og það er hið ánægjulegasta mál. Ég fagna vissulega miklum stuðningi hv. þingmanna við þessa samgönguáætlun sem felur í sér (Forseti hringir.) mikilvægar breytingar á samgöngukerfinu á Íslandi.