133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[17:33]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tilkynni hæstv. samgönguráðherra að leið hófseminnar af minni hálfu er lokið. Það er einfaldlega svo að það þarf að gera átak í þessum málum. Það er ekki hægt að sætta sig við að menn komi hér og lofi öllu fögru, taki svo sex, sjö milljarða til baka á næstu þremur árum, komi svo aftur og lofi öllu fögru og taki svo aftur til baka, ef þeir sitja við völd, sem vonandi verður ekki.

Þetta verklag gengur ekki. Þetta er liðin tíð, hæstv. ráðherra. Ef hæstv. ráðherra vill gæta þess hófs að kippa alltaf til baka ákvörðunum sínum verður hann að vera einn um það. Ég ætla ekki að styðja hann í því, það er komið nóg af slíku.

Ég er með bréf frá bæjarstjórnum á Vestfjörðum um samgöngumál frá 2. febrúar 2007, ég veit ekki hvort ráðherrann hefur séð það. Þar segir að hraða þurfi framkvæmdum og auka fjármagn til málaflokksins á Vestfjörðum og ljúka hringtengingu Vestfjarða innan fjögurra ára. Ég hélt að hæstv. ráðherra væri það vel tengdur við a.m.k. suma sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum að hann fengi svona beint í æð.

Hæstv. forseti. Ekki verður undan því vikist lengur að taka á samgöngumálum þeirra landsfjórðunga, Vestfjarða og Norðausturlandsins, sem hafa setið eftir á undanförnum árum. Ég fagna því að loksins skuli vera komnar á útboðs- og verkstig framkvæmdir í Ísafjarðardjúpi sem var frestað á síðasta ári. Ég fagna því líka að menn setji í áætlun að stytta eigi þar leiðir o.s.frv. Ég segi einfaldlega: Það koma nógar tekjur af samgöngum á Íslandi til þess að taka frekari og hraðari skref í samgöngumálum en gert hefur verið á undanförnum árum.