133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[18:10]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom hér fyrr í dag og veitti andsvar við ræðu minni um alveg nákvæmlega þetta sem hann var að tala um núna, þ.e. breidd umferðarmannvirkja á Suðurlandi.

Ég vísa til þess sem ég sagði þá og vísa til þess sem stendur í samgönguáætluninni. Hv. þingmaður getur því rifjað það upp og eftir atvikum flett því upp hvað ég sagði í svari mínu fyrr í dag og það fór ekkert á milli mála hvað ég sagði þar.

Hvað varðar vangaveltur hjá hv. þingmanni um hvað hafi staðið í vinnuskjölum sem stjórnarflokkarnir eru að fjalla um og nota það sem uppistöðu í ræðu hér í þinginu er algerlega með ólíkindum. Við erum að ræða þau skjöl sem liggja hér fyrir, samgönguáætlun. Mér finnst það vægast sagt ósmekklegt að láta að því liggja að hv. þingmaður hafi komist yfir einhver skjöl sem eru vinnuskjöl stjórnarflokkanna. Hver upplýsti hv. þingmann um það? (Gripið fram í: Íslenskir fjölmiðlar … hæstv. ráðherra. … kom fram í fjölmiðlum.) Það er mjög athyglisvert að hv. þingmaður skuli þá ekki hafa leitað upplýsinga, leitað eftir því að fá traustar heimildir. Það er mjög sérkennilegt að nota þetta sem meginuppistöðu í ræðu hér í þinginu.

En að öðru leyti, virðulegur forseti, vísa ég til þess sem ég sagði í andsvörum fyrr í dag hvaða forsendur liggja að baki við gerð Suðurlandsvegarins og það er alveg skýrt og klárt hvað það er.