133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[18:12]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Það sem er ósmekklegt í þessari umræðu, frú forseti, er sá pólitíski leikaraskapur sem hæstv. samgönguráðherra hefur hér uppi. Í staðinn fyrir að svara beinum spurningum um það sem stendur í samgönguáætlun þá er hann með undanbrögð, fúkyrði og útúrsnúninga, felur sig á bak við algjör aukaatriði í málinu. Hæstv. ráðherra svarar ekki beinum spurningum um hvort eigi að tvöfalda veginn austur fyrir fjall eða ekki. Eða hvort eigi að fara í höfn við Bakkafjöru eða jarðgangakostinn.

Engu af þessu kýs hann að svara nema með útúrsnúningum. Það er það sem er ósmekklegt þegar hæstv. ráðherra getur ekki komið í ræðustól Alþingis og svarað fyrir samgönguáætlun sína eins og honum sæmir að gera mjög skýrt og afdráttarlaust. Það er ósmekklegt og ákaflega dapurlegt við alla framgöngu hæstv. ráðherra í málinu.

Eftir sextán ára stanslausa svikagöngu Sjálfstæðisflokksins í samgöngumálum kemur hæstv. ráðherra allt í einu 90 dögum fyrir kosningar og lofar að gera allt fyrir alla þó hann vilji ekki einu sinni kannast við það að fullu og vísar í einhver loðin ummæli í öðrum og fyrri umræðum. Það sem er dapurlegt við umræðuna er framganga Sjálfstæðisflokksins í samgöngumálum gegnumsneitt síðustu sextán árin. Niðurskurður, aftur loforð á kosningaárum, niðurskurður aftur, hverju eiga kjósendur að treysta í þessum málum? Það hlýtur að verða spurt að því þegar þessar risavöxnu kosningaáætlanir eru lagðar fram núna, þegar Sjálfstæðisflokkurinn er, eins og allt bendir til, að yfirgefa Stjórnarráðið eftir sextán ára setu þar.