133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[18:29]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans innlegg í umræðuna. Ég get að ýmsu leyti tekið undir það með honum að áætlanir af þessu tagi eru afar mikilvægar. Hann lagði áherslu á að gera þyrfti áætlanir lengra fram í tímann. Ýmsum finnst nú nóg að gert að gera áætlanir tólf ár fram í tímann en hvað um það. Lögin eru skýr, þau gera ráð fyrir þessari tímalengd.

Hv. þingmaður reyndi að gera áætlunina tortryggilega með því að hún væri einhver áfellisdómur yfir því sem ekki hefur verið gert í gegnum tíðina. Ég vil segja við hv. þingmann: Allt hefur sinn tíma. Ég tel t.d. að það hafi verið bylting á sínum tíma fyrir byggðirnar á Vesturlandi þegar Hvalfjarðargöngin voru grafin, það var algjör bylting. Það var bylting þegar vegurinn fyrir Hvalfjörð var lagður bundnu slitlagi. Þetta landsvæði varð allt annað og ákjósanlegra til búsetu með sama hætti og þegar vegurinn var lagður austur fyrir fjall með bundnu slitlagi alla leið austur á Hellu, það var bylting á þeim tíma. Með sama hætti má segja að bylting hafi orðið þegar ýmsir fjallvegir voru byggðir upp á sínum tíma. Allt hefur sinn tíma og við horfum fram á veginn.

Auðvitað höfum við ekki lokið allri uppbyggingu í samgöngumannvirkjum á Íslandi. Hverjum datt það í hug? Er þá bannað að gera áætlanir eða leggja á ráðin um næstu skref í uppbyggingu samgöngumannvirkja vegna þess að það hefði allt átt að vera búið? Hvers konar umræða er þetta eiginlega? Ég fagna því hins vegar að hv. þingmaður sagði (Forseti hringir.) að honum litist vel á áætlunina. Það er aðalatriði málsins.