133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[18:35]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eðlilega fóru fram umræður um gerð Hvalfjarðarganga og menn tókust á um þau á Vesturlandi á sínum tíma. Þær umræður fóru m.a. fram á fundum samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi. Þar höfðu menn ýmsar skoðanir á því hvort fara ætti í þessi göng. Ýmislegt var tínt til sem menn fundu því til foráttu. Ég man ekki betur en að gerðar hafi verið ályktanir sem voru ekki jákvæðar hvað þetta varðar. Ég held að ég muni það ekki rangt að hæstv. ráðherra hafi verið á þeim fundum.