133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[18:59]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar við afgreiddum samgönguáætlun fyrir tveimur árum beitti ég mér mjög fyrir því að lenging flugbrautar á Akureyri kæmi inn þá en náði því ekki fram. Ég er mjög ánægður yfir því að hafa náð því fram nú að lengingin verði á árunum 2008 og 2009, og hygg raunar af viðtölum mínum við menn nyrðra að þeir séu líka ánægðir.

Áhyggjur okkar snúast á hinn bóginn aðallega um að nauðsynlegt er að stækka flugstöðina. Það kostar 200–300 millj. kr. eftir því hvernig það er hugsað. Síðan er spurning hvaða aðflugsbúnaði þurfi að koma upp. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef liggur það ekki endanlega fyrir hvaða tillögur eru um það. Eins og ég sagði beini ég því til samgöngunefndar að athuga sérstaklega það sem snýr að flugöryggi og þær kröfur sem nýjar gerðir Evrópusambandsins hafa gert og hafa m.a. valdið því að um skeið voru starfsmenn flugvallarins í Reykjavík hræddir um að stöðva yrði allt flug til Grænlands og Færeyja jafnvel nú á þessu vori Nauðsynlegt er að samgöngunefnd fari yfir það mál.

Hvað Egilsstaðaflugvöll varðar þá standa þær sakir þannig að þar liggur skipulag ekki fyrir þannig að það mál getur ekki komið upp fyrr en við endurskoðun samgönguáætlunar.