133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[19:01]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að því leytinu til erum við hv. þingmaður ósammála, ég er ekki ánægður með að framkvæmdum við lengingu flugbrautarinnar á Akureyri verði ekki lokið fyrr en 2009 eins og hv. þingmaður er. Hann lýsir sig ánægðan með það.

Þetta er samkeppnishindrun eins og þetta er í dag gagnvart fraktfluginu sem á að hefjast, það hefur áður verið rætt hér, og líka gagnvart farþegafluginu sem er verið að þróa, millilandafluginu, og er óþolandi að hún sé sett upp á vegum ríkisvaldsins eins og hér er gert.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ánægður með að ljúka hér störfum við það að Norðfjarðargöng sem eru ákaflega brýn, engu hættuminni leið en Óshlíðin, fari ekki í útboð fyrr en einhvern tímann árið 2009, væntanlega með framkvæmdum 2010 og þá verður verkinu ekki lokið fyrr en kringum 2013.

Ég tel algjörlega óásættanlegt að bíða svo lengi (Forseti hringir.) með þessi göng í 630 (Forseti hringir.) metra hæð og stórhættulegan veg. Er hv. þingmaður ánægður með þetta?