133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[19:04]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal tók hér tvívegis Þverárfjallsveg sem dæmi um fjallveg sem ráðist hefur verið í nýlega og virkuðu orð hans á mig eins og honum hefði þótt það tiltölulega óþörf framkvæmd. Styttingin til Reykjavíkur sem með þessu fékkst er einn ávinningurinn, en annar og ekki síðri er samgangurinn sem fyrir vikið er orðinn á milli byggðarlaganna þriggja, Blönduóss, Skagastrandar og Sauðárkróks, og hinn sameiginlegi vinnumarkaður sem þar hefur skapast.

Umferðin um þennan veg er mun meiri en ætlað var í upphafi, svo miklu meiri að nú hefur verið tekin ákvörðun um að hafa þann hluta vegarins sem verið er að vinna að núna einum metra breiðari en þann fyrri sem lokið var við fyrir nokkru síðan.

Annað sem hv. þingmaður kom inn á eru malarkaflar á hringveginum sem hann taldi eingöngu vera á Norðaustur- og Austurlandi og ég hygg að það sé rétt hjá hv. þingmanni. Hins vegar vil ég benda á þá ósanngirni sem felst í því að tala aðeins um hringveginn í þessu sambandi. Vestfirðirnir eru ekki inni á hringveginum, svo undarlegt sem það er, en þar eru aðalleiðir. Þær eru enn þá að talsverðum hluta malarvegir og töluvert í land að þeir komist í fullnægjandi horf. Það eru ekki bara Austfirðingar sem líða fyrir slælega framgöngu þessara ríkisstjórnarflokka í samgöngumálum síðustu 16 árin.