133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[19:06]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég vakti athygli á var að teknir voru vegir af hringveginum og Norðurárdal í Skagafirði í Þverárfjall. Hringvegurinn um Norðurárdal í Skagafirði er einhver hættulegasti kaflinn á leiðinni nú. Góður vinur minn var þar fyrir skömmu og lenti í árekstri á einni brúnni þar og var hann með börnin sín aftur í. Þetta er alveg hryllilegur vegur. Maður hlýtur að mega tala um þennan veg án þess að Skagfirðingar hrökkvi í kút.

Við höfum lagt á það áherslu á Akureyri að stytta leiðina til Reykjavíkur og það verður gert með því að fara frá Langadal yfir á Svínvetningabraut. Þetta eru tillögur sem hafa verið unnar mjög í tíð núverandi hæstv. samgönguráðherra og ég álít nauðsynlegt að hrinda þeim í framkvæmd úr því að ekki kemur til greina að stytta leiðina með öðrum hætti. Ég held að við hljótum öll að vera sammála um það.

Þegar ég var samgönguráðherra mátust menn mikið á um það, Vopnfirðingar og Þingeyingar og svo Vestfirðingar, hvar væru lengstu malarkaflarnir. Ég hélt því fram að við ættum að byggja þetta upp samtímis. Af þeim sökum gerði ég Djúpveginn að stórverkefni en ekki vegina að Vopnafirði og í Norður-Þingeyjarsýslu.

Ef borið er saman nú er alveg augljóst að það er mjög skammt í að það verði komið bundið slitlag frá Ísafirði á hringveginn. Það eru 70 kílómetrar frá hringveginum niður á Vopnafjörð og allt malarvegur, og það er fjallvegur, eldgamall fjallvegur. Menn þurfa ekki að fara að byrja á svona barnalegum metingi í þingsölum.