133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[19:08]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef greinilega ekki talað nógu blíðum rómi til hv. þingmanns því að ég ætlaði mér á engan hátt að styggja hann og hrökk ekki neitt við undir ræðu hans.

Ég get aftur á móti tekið fyllilega undir öll þau orð sem hann viðhafði um ástand vegarins milli Reykjavíkur og Akureyrar og þá hættu sem er á veginum víða, ekki einungis í Norðurárdal í Skagafirði, heldur líka í Norðurárdal í Borgarfirði eins og hv. þingmaður kom inn á.

Ég vildi hins vegar nota tækifærið til að benda á það að Vestfirðingar keyra líka á malarvegi. Þessi ábending mín þýðir ekki að það sé betra fyrir Austfirðinga að keyra á malarvegi þó að fleiri landsmenn keyri á malarvegi. Bara alls ekki. Við eigum auðvitað öll rétt á því að komast á milli á bundnu slitlagi á aðalvegum landsins.

Þó að ekki sé langt í að Djúpvegur verði malbikaður er suðurleiðin frá suðurfjörðum Vestfjarða til (Forseti hringir.) Reykjavíkur enn þá í mjög slæmu ástandi.