133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[19:10]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Virðulegi forseti. Hér hefur í allan dag staðið yfir mikil umræða um samgönguáætlun og má segja að ekkert hafi komið á óvart í þeirri umræðu. Hér nálgast hv. þingmenn auðvitað viðfangsefnið úr ólíkum áttum eftir því hvort þeir koma úr stjórn eða stjórnarandstöðu og síðan vilja menn gjarnan ræða sérstaklega sín kjördæmi svo sem endranær og er í sjálfu sér ekkert einkennilegt við það.

Það hefur hins vegar komið nokkuð á óvart hve neikvæður tónn hefur verið í ýmsum hv. þingmönnum í umræðunni en samt tel ég að skynja megi og lesa út úr þeim ræðum sem hafa verið haldnar að í rauninni er ekki mikill ágreiningur um markmiðin sem fram koma í samgönguáætluninni og kannski ekki heldur ágreiningur um að vilja sjá sumar framkvæmdir gerast hraðar og vilja sjá meiri fjármuni renna til samgöngumála. Það er e.t.v. enginn ágreiningur um það heldur. Eflaust vildu allir sjá meiri peninga í samgöngumálum enda samgöngumannvirki líklega þau mikilvægustu fyrir hverja byggð. En það sem kannski skiptir mestu máli í þessu er að skoða staðreyndir og skoða þá mynd sem við blasir í lok langtímaáætlunar, hvaða mynd við sjáum blasa við og getum teiknað upp árið 2018 þegar langtímaáætlunin rennur sitt skeið á enda miðað við þau metnaðarfullu markmið sem þar eru sett upp.

Þá er fyrst til að taka, virðulegi forseti, að á þessu tímabili er áætlað að leggja 381 milljarð kr. og það er rétt að endurtaka þessa tölu, 381 milljarð kr. í samgöngubætur á Íslandi. Það er óhætt að segja að þetta er Íslandsmet. Aldrei í sögu þjóðarinnar hefur jafnmiklum fjármunum verið varið til samgöngubóta og á þessu tímabili samkvæmt áætluninni og það sem er meira, ef allt gengur eftir, þá felst 30% raunaukning frá síðustu áætlun í þessum fjármunum. Það er í sjálfu sér ekkert smáræði enda mörg stór og metnaðarfull verk sem er verið að leggja í.

Áður en lengra er haldið vil ég þó aðeins velta þessum peningum, 381 milljarði kr., örlítið upp og tengja þetta aðeins við þá fjármögnun sem við höfum komið okkur upp varðandi samgöngumannvirkin og það er hin mikla skattlagning á eldsneyti. Það er auðvitað umhugsunarefni fyrir okkur, annars vegar hversu í rauninni lítill hluti af þeirri skattlagningu rennur til þeirra verka sem þeim var ætlað að renna til, þ.e. til samgöngumannvirkja og síðan hins vegar ef það verður breyting á sem vonandi gerist, að við förum að sjá vistvæn ökutæki þá hlýtur þessi fjármögnun að koma til algerlegrar uppstokkunar og endurskoðunar enda er unnið að því í vinnuhópi á vegum nokkurra ráðuneyta.

En hvaða mynd er það sem við getum teiknað upp árið 2018 miðað við þau verkefni sem hér eru í gangi? Þá er þar fyrst til að taka að árin 2011–2012 verður komið varanlegt bundið slitlag á hringveginn og þarf ekki að fara í rauninni mörg ár aftur í tímann til að rifja upp hvernig ástand var á hringveginum þá og ef það gengur eftir að við verðum komin með malbik á hringveginum 2011–2012 þá er þar í rauninni um sögulegan og eiginlega byltingarkenndan atburð að ræða. Það er langþráð markmið sem er þar með að nást og er kannski tákn um þær stórkostlegu samgöngubætur sem hér hafa orðið á allra síðustu áratugum.

Við sjáum líka fyrir okkur strax á fyrsta tímabilinu að hringvegurinn, þ.e. kaflinn frá Reykjavík til Akureyrar, verður orðinn 8,5 metrar á breidd og hann verður endurbyggður þannig að hann þoli þá vaxandi og þungu umferð sem misþyrmir veginum í dag og það sem er meira, þá verðum við komin með tök á burðarþoli vega í ljósi þeirra miklu þungaflutninga sem við sjáum á vegum landsins og það er ekkert smáverkefni sem er verið að vinna með því og tengist auðvitað öryggi á leiðinni Reykjavík – Akureyri og með þeim breytingum sem verða á fyrsta tímabilinu þá eru það engar smábreytingar í átt til öryggis vegfarenda á þeirri fjölförnu leið.

Það er vert að minna á það, virðulegur forseti, að á rúmlega 10 árum hafa hátt í 300 einbreiðar brýr horfið og komnar almennilegar brýr í þeirra stað. Og þar að auki verða á næsta áratug eða rúmlega næsta áratug samkvæmt þessari samgönguáætlun nær allar einbreiðar brýr horfnar af helstu vegum landsins. Hver hefði trúað því bara fyrir 10 árum að við sæjum það gerast og við upplifðum það? Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hvílíkt öryggisatriði það er að losna við allar helstu einbreiðar brýr. Auðvitað verða þær eftir á einhverjum minni vegum sem eru ekki mjög fjölfarnir og er eðlilegt í sjálfu sér.

Það er líka vert að draga það fram að það er mjög metnaðarfullt í þessari samgönguáætlun að allar meginleiðir til og frá Reykjavík verða komnar í tvöföldun. Það snertir auðvitað öryggismál mikið því eins og við vitum og ítrekað hefur komið fram í umræðum um samgöngumál m.a. í utandagskrárumræðum, þá er Vesturlandsvegur upp að Hvalfjarðargöngum líklega sá sem veldur mestum slysum í dag og síðan kemur Suðurlandsvegurinn og Reykjanesbrautin var svo í þriðja sæti og við sjáum þá að samkvæmt þessari áætlun verður búið, ef þannig má að orði komast, að kippa því máli í liðinn.

Ég vil mjög taka undir það sem hæstv. samgönguráðherra hefur nefnt og hefur komið til umræðu að við eigum alveg óhikað að leggja inn á nýjar brautir og skoða þessa skuggagjaldaleið svokölluðu algerlega óhikað. Við eigum að fara fram með sem flestum leiðum til þess að hraða vegagerð hér á landi og með skuggagjaldaleiðinni erum við ekki að einkavæða vegina heldur erum við að fara aðrar leiðir en hinar hefðbundnu. Þær eru í sjálfu sér ekkert óáþekkar þeim sem farnar voru við Hvalfjarðargöngin því að markmiðið er að að lokum muni ríkið eignast þessa vegi. Meðal annars hefur þessi umræða komið upp varðandi tvöföldun Hellisheiðar. Ég vil einmitt í því sambandi benda á að samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir verulegum upphæðum til þess að tvöfalda veginn á milli Selfoss og Reykjavíkur en verði hins vegar farin þessi skuggagjaldaleið þá hlýtur það fjármagn að losna því samkvæmt skuggagjaldaleiðinni á að greiða fyrir notkunina á 20, 30 eða 40 árum en ekki að greiða veginn upp á þeim stutta tíma sem gert er ráð fyrir í áætlun. Þá vilja sjálfsagt margir komast í þá fjármuni sem þá geta losnað.

Ef við lítum, virðulegi forseti, á göngin þá má segja að við séum að fara hina færeysku leið, að vísu ekki að búa til þverflautuna eins og Karlsey í Færeyjum er kölluð vegna margra ganga, en þar er í rauninni verið að boða byltingu. Ég nefni bara Sundabrautina, hugsanlega í göngum, ég nefni göngin undir Hlíðarfót við Öskjuhlíð, Arnarfjörð, Óshlíð, Héðinsfjarðargöng, Vaðlaheiði, göng undir Oddsskarð, Lónsheiði og í lok þessa tímabils, 2018, verða menn ekki bara farnir að aka um göng á þeim leiðum sem ég nefndi áðan heldur sjá menn hilla undir Hellisheiðargöng og göng á Miðausturlandi og vonandi undir Reynisfjall á Suðurlandi. Þetta er ekkert smáræði því við erum að tala um mynd sem við sjáum fyrir okkur 2018 og það er ekkert langt í það. Þetta er með örðum orðum hvað göng varðar alveg eins og með einbreiðar brýr eða veginn til Akureyrar eða leiðirnar til Reykjavíkur, þetta er byltingarkennt.

Þeir vegir sem oft hafa komið hér til umræðu eru annars vegar á Vestfjörðum og hins vegar á Norðausturhorninu. Það er farið í hressilegt og gott átak þar og ekki má gleyma því að samkvæmt áætlunum eftir 2007, ef ég man rétt, eru fjármunir til tengivega tvöfaldaðir og með því að tvöfalda fjárhæðir í tengivegi vitum við að við gætum verið að vinna afskaplega mikil og góð verk á því sviði. Ég hef aðeins skoðað það varðandi það kjördæmi sem ég þjóna fyrir, þ.e. Suðurkjördæmi, að þegar þeim stærstu vegabótum sem áætlaðar eru þar verður lokið og eins og fram kemur í samgönguáætlun þá er ég að tala um tvöföldun Reykjanesbrautar, Hellisheiðar, brú úr nýju vegarstæði hjá Hornarfjarðarfljóti og göngubrú yfir Hvítá og þar fram eftir götunum þá erum við búin að taka öll þau stærstu verkefni og þau mest fjárkrefjandi verkefni sem það kjördæmi kallar á og þá um leið skapast miklu meira svigrúm og andrými til að ráðast í minni framkvæmdir svo sem hina fjölmörgu safn- og tengivegi sem eru í Suðurkjördæmi þannig að þegar hinum stóru verkefnum er lokið innan ekki svo margra ára þá sér maður fyrir sér enn frekari og meiri hraða á safnvegum og tengivegum.

Ég vil aðeins á þeim stutta tíma sem eftir er víkja að Samgöngumiðstöðinni. Ég vil túlka það svo og vísa m.a. til ummæla borgarfulltrúa í Reykjavík að þó að samgöngumiðstöðinni sé valinn staður nærri Vatnsmýrinni þá er ekki með því verið að taka endanlega afstöðu til framtíðar Reykjavíkurflugvallar heldur eingöngu verið að koma þar fyrir samgöngumiðstöð enda þarf að vera samkomulag milli ríkisvalds og Reykjavíkurborgar um framtíð Reykjavíkurflugvallar og það mál er í endurskoðun. Ég hins vegar lýsi sem persónulegri skoðun efasemdum um staðsetningu samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýrinni einfaldlega vegna þess að það kallar á svo mikla umferð í gegnum allan bæinn til að komast að eða frá Samgöngumiðstöðinni og ég tel að að ýmsu leyti mundi henta betur að hún væri frekar í útjaðri borgarinnar. Það er líka vert að draga upp þá mynd sem kemur fram í samgönguáætlun og ef tekið er mið af umferðarspá og við skoðum það sem ágætir sérfræðingar hafa kallað öxulinn frá Keflavík og að Samgöngumiðstöðinni, þá verður það líklega svona einn meginöxullinn í samgönguæðum okkar landsmanna og kemur það til af hinni stöðugt vaxandi flugumferð sem lendir á Keflavíkurflugvelli og síðan fylgir því að farþegar þurfi að komast að og frá Keflavíkurflugvelli og gjarnan til Reykjavíkur. Mannvirkin hljóta að taka mið af því og reyndar vil ég varpa því fram sem hefur komið fram í umræðu um hugsanleg göng frá Straumsvík og yfir í Vatnsmýrina til að létta af hinni miklu umferð í gegnum Hafnarfjörð, Garðabæ og Kópavog.

Virðulegur forseti. Þetta er svona rétt gróf mynd sem hægt er að draga upp árið 2018 ef fyrirliggjandi áætlanir ganga eftir og ég verð að segja eins og er að mér finnst þetta glæsileg mynd. Þetta eykur öryggi á vegum landsins, þetta tengir saman byggðir og styrkir okkur sem samfélag í heild. Hér er verið að leggja út á nýjar brautir og hér er verið að leggja meira fé til samgöngumála en hefur nokkru sinni verið gert. Það er þess vegna ástæða til að fagna metnaðarfullri samgönguáætlun. Vissulega hefðu menn viljað sjá eitt og eitt verkefni ganga fyrr fyrir eða sjá örlitlar breytingar hver í sínu kjördæmi en Róm var ekki byggð á einni nóttu og það gildir einnig um samgöngumannvirki okkar en ég vil árétta það hvílíkar stökkbreytingar hafa orðið og hvílík bylting hefur orðið í samgöngumannvirkjum á Íslandi á síðustu áratugum. Þær eru í rauninni meiri en nokkurn hefði órað fyrir en hér er verið að stíga stærstu skref sem stigin hafa verið í samgöngubótum á Íslandi, hvorki meira né minna og þess vegna er það tilhlökkunarefni að fá að vinna við það í samgöngunefnd þegar áætlunin verður komin þangað.