133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[19:25]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir því í ræðu hv. þingmanns að hann var svolítið hrifinn af þessum skuggagjöldum. Mig langar til að fræðast betur af hv. þingmanni hvaða kosti hann sér við þau. Þetta er sambærilegt við það að nota kreditkortið fyrir venjulegt fólk. Maður gerir það ekki ef maður á pening.

Ríkissjóður er eldsterkur um þessar mundir og ef maður ætlar að fara í langtímafjárfestingu sem einstaklingur þá reynir maður að leita að hagstæðum lánum. Maður notar ekki kreditkortið í það. Reynslusamningar með því lagi eru dýrir.

Hvernig stendur á því að hv. þingmaður er til í það og telur það svona áhugavert að fá einhverja aðra aðila til að fjármagna vegaframkvæmdir í framtíðinni, eftir 20, 30 eða 40 ár? Ég hef ekki fengið haldbær rök fyrir þessu vegna þess að mér hefur alltaf fundust að þau rök sem ég hef heyrt hafi verið rök þeirra sem eru blankir og þeirra sem hafa ekki möguleika á því að fá bestu fjármögnun. En það vill þannig til að ríkissjóður Íslands getur náð sér í fjármagn með eins góðum kjörum og hægt er að fá. Hvers vegna skyldu menn þá leita þeirra leiða að fá peninga með skuggagjöldum til framtíðarframkvæmda á vegum framtíðarinnar?