133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[19:30]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að ef leiðin sem farin var við gerð Hvalfjarðarganga hefði ekki verið farin, væru þau kannski hugsanlega ekki komin núna en þau hefðu dregist um nokkur ár, m.a. vegna þess að menn eru að togast á um fjármuni til einstakra verkefna, eins og við höfum heyrt af umræðunni í dag.

Ég ítreka að ég er þeirrar skoðunar að við eigum að skoða það sem hugsanlegan kost að fara þessa skuggagjaldaleið, athuga hvort aðilar úr atvinnulífinu geti boðið þetta með hagkvæmari hætti. Þeir fullyrða að svo sé. Við eigum ekki að slá á þær hendur. Við eigum að láta á það reyna, það er mjög auðvelt að gera það. Ef síðar kemur í ljós að þeir hafi ekki burði til að standa við sínar metnaðarfullu áætlanir þá eigum við hina leiðina eftir.

En takist mér hins vegar ekki að sannfæra hv. þm. Jóhann Ársælsson um þetta, þá vísa ég honum á hinn framsýna hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, þingmann Samfylkingarinnar, sem hefur einmitt lýst yfir sömu skoðun og ég hef gert, að við eigum óhikað að horfa til nýrra leiða til að leysa krafta úr læðingi og athuga hvort framsýnir og dugmiklir verktakar geti gert það á hagkvæmari hátt en við höfum farið í venjulegum leiðum. Og þá er til nokkurs unnið.