133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[20:20]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það taldi höfundur leiðara Morgunblaðsins haustið 1994 einnig, að markaðurinn mundi sinna þessu en hann gerði það ekki. Við búum ekki við strandsiglingar í dag fyrir bragðið vegna þess að markaðurinn fór einfaldlega til útlanda þar sem meira var að hafa upp úr annars konar viðskiptum og braski í sumum tilvikum. Þess vegna var farið annað.

Ýmsar leiðir eru til að taka á þessum málum. Ef menn vilja halda sig við markaðinn og markaðslausnir er vissulega hægt að stýra flutningunum með óbeinum hætti, t.d. með gjöldum á þungaflutningum á vegunum. Hægt er að gera það þannig óhagkvæmara að vera með þungaflutninga á vegum en nú er. Það er ein leið.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra vilji skoða þessi mál, ég skil orð hans svo. En því miður erum við búin að heyra slíkar ræður allt of oft og reyndar á hverju einasta ári en það er ekkert gert. Við erum að kalla eftir aðgerðum. (HBl: ... skatta á þungaflutningum?) Ég vil finna leiðir, ég er fyrst og fremst að tala fyrir því að ríkið styðji strandsiglingar við Ísland og styðji við beina þungaflutninga á sjó út og við drögum úr álagi á vegakerfi landsins með því móti. Þetta er nokkuð sem menn hafa talað fyrir og reyndar er þverpólitísk samstaða um að menn vilji skoða. Það hefur verið tekið vel í slíkar hugmyndir.

Síðan er eitt sem ég vil leiðrétta hjá hæstv. ráðherra. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er enginn frumkvöðull einkavæðingar (Forseti hringir.) eða einkaframkvæmda. Það er af og frá. Hann hefur talað manna harðast gegn slíku fyrirkomulagi.