133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[20:22]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér frumvarp sem flutt var árið 1990 um heimild til að grafa jarðgöng undir Hvalfjörð og láta greiða gjald fyrir afnot af þeim göngum, og kynna sér hvaða ráðherra stóð fyrir því. Hann hét Steingrímur J. Sigfússon.

Um strandsiglingarnar er það að segja, eins og ég sagði fyrr, að við erum í vandræðum með ríkisstuðninginn, við getum ekki brotið þær reglur. En ég tel og hef sagt það áður að við eigum að skoða alla hugsanlega möguleika sem gætu leitt til þess að við næðum þeim árangri að lækka flutningskostnaðinn í landinu. Við í samgönguráðuneytinu erum að skoða það núna, m.a. með viðræðum við skipafélög og fleiri aðila og í samstarfi við forsvarsmenn sjávarútvegsfyrirtækja, að leita leiða til að lækka flutningskostnað. Það verður hins vegar ekki gert með því að hækka skatta á landflutning vegna þess að stór hluti og mest af flutningum af höfuðborgarsvæðinu og út á land og til baka, allar afurðirnar sem fluttar eru og þurfa að fara um borð í flugvélar, ferskur fiskur o.s.frv., það væri mikið óheillaspor ef við færum að leggja sérstakan sektarskatt á þann flutning til að reyna að laða fram sjóflutninga. Það mundi hækka afurðaverð og það mundi hækka flutningskostnað á landinu í heild. Við eigum að finna leið til þess að sjóflutningar geti orðið arðbærari en þeir eru í dag í þágu þess að lækka flutningskostnaðinn. Ef okkur tekst það er björninn unninn, að ég tel.