133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[20:27]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson beindi orðum til mín vegna orða sem ég hef áður látið frá mér fara varðandi þungaflutninga á landi. Það er rétt að fyrir liggur að slit á vegum er á við 30 þúsund bíla sem einn flutningabíll með 40 feta gám slítur. Þetta eru náttúrlega mismunandi tölur, fer eftir veðurfari, frosti, hláku, hlýnun o.s.frv.

Þannig háttar til að við erum með ríkisstyrkt innanlandsflug, við erum með ríkisstyrktar ferjur. Evrópusambandið hefur hvatt ríkið til að styrkja sjóflutninga á milli landa og ég spyr: Því ekki strandflutninga? Ég sé ekki að við færum mikið út úr kortinu með það. Hins vegar er ég ekki alveg sammála þeirri leið sem hv. þm. Ögmundur Jónasson talar um, þ.e. þetta sé í skattalegu formi. Ég teldi að hægt væri að finna þá leið að einhver ákveðinn styrkur væri frá ríkinu varðandi hvern gám eða miðað væri við einhvern gámafjölda og flutning á ári, og ef flutningar tækjust það vel yrði ríkisstyrkurinn jafnvel áfram. En hitt er annað að kostnaður við veghaldið mundi lækka ef við kæmum flutningunum út á sjó sem þýddi þá að það væri kannski status quo í fjárframlagi til samgöngumála. Þetta væri aðeins tilflutningur fjármagns.

Annað sem hér hefur komið fram varðandi þungaflutningana. Við erum ekki að tala um matvæli. Við skiljum það að fólk úti á landi vill auðvitað ekki fá matvælin til sín á síðasta söludegi vörunnar heldur miklu fyrr. Og svo eru einstakir hlutir sem bráðliggur á að senda út á land ef um er að ræða einhverja bilun í atvinnutækjum eða öðru. En ég held að full ástæða sé til að skoða þessa leið.