133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[20:29]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í tillögu okkar til þingsályktunar leggjum við til að skoðað verði hvort hyggilegt væri að bjóða út siglingaleiðir. Það er hins vegar ekki meginmálið nákvæmlega hvernig við stöndum að þessu heldur að við náum markmiði okkar sem er að koma á strandsiglingum við Íslandsstrendur og færa flutninga, sérstaklega þungaflutninga, ég tek undir það, af landinu út á sjóinn. Það er meginmarkmiðið. Við tölum um að stefna verði mótuð og aðgerðaáætlun sett í því skyni og við erum að bjóða fram stuðning okkar við hugsanleg lagafrumvörp sem gengju í þá átt.

Við erum opin fyrir því að fara hugsanlega aðrar leiðir en þá sem við leggjum til. Við teljum hyggilegt að fara þessa leið, en við erum að sjálfsögðu einnig opin fyrir öðrum hugmyndum. Ég fagna því að hv. formaður samgöngunefndar taki vel í þær hugmyndir en við erum orðin svolítið þreytt á að heyra bara fögur orð en engar efndir.