133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[20:30]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Talað hefur verið hér nokkrum sinnum í dag um fögur fyrirheit og fögur orð. Við höfum þau varðandi landflutningana. En hvernig má þá vera, eins og ég hef áður getið um, að þá strandflutningar voru síðast með flutningaskipinu Jaxlinum og það lá ljóst fyrir að milli 30 og 40% ódýrara var að flytja með því skipi t.d. frosinn fisk og aðra vöru í gámum en að flytja vöruna landveginn brá svo við að framleiðendur þessara sjávarafurða og annars varnings í hinni dreifðu byggð notuðu ekki þessa ódýru flutningaleið? Þó að hv. þingmenn hafi góð áform um að ná til þessa flutningsforms, að flytja vöruna á sjó, þarf fleira að koma til en góður vilji Alþingis og einhver fjárstuðningur. Ef framleiðendur sjálfir eru ekki tilbúnir til að flytja vöruna með þessum hætti erum við illa sett. Við þekkjum öll í þinginu þennan mismun á flutningsmáta, á sjóleiðinni og landleiðinni. Flutningur á landi er nánast frá dyrum til dyra en flutningur á ströndina þýðir aftur á móti að varan er skilin eftir á bryggju og þá getur verið eftir talsverður kostnaður við að koma henni til eða frá framleiðanda.

Það eru margar hliðar á þessu máli sem þarf að skoða eins og hæstv. samgönguráðherra kom inn á áðan. Mér finnst hins vegar full ástæða til og ég tel við séum ekki að vaða villu og reyk með því að skoða þetta alvarlega í ljósi þess sem ég sagði áðan, að við erum með ríkisstyrkt flug til margra staða hér á landi, við erum með ríkisstyrktar ferjur. Evrópusambandið hvetur til ríkisstyrks (Forseti hringir.) til kaupskipaútgerðar. Ég held að við værum ekki að fara neina afbakaða leið ef þetta yrði reynt.