133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[20:50]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki viss um að ég hafi neinn sérstakan áhuga á því að vera í einhverri halarófu á eftir Vinstri grænum. (Gripið fram í.) Ég vil hins vegar vekja athygli á því að í samgönguáætluninni er mikil áhersla lögð á almenningssamgöngur. Hafi þingmenn ekki tekið eftir því er ástæða til þess að þeir fari að gera það. Á fyrsta tímabili áætlunarinnar látum við 4,5 milljarða í ríkisstyrki til almenningssamgangna. Flutningar í flugi hafa verið að aukast. Við höfum stóraukið þjónustu ferjanna, ekki síst Herjólfs til Vestmannaeyja, og nú hefur það gerst eftir endurskipulagningu sérleyfanna í landinu að fólksflutningar með rútum eru að aukast. Ég get glatt hv. þingmenn með því.

Við erum því að leggja okkar af mörkum, m.a. með þeim áherslum sem eru í samgönguáætluninni og hafa verið í áherslum okkar í framkvæmd hvað þetta varðar. Ég tel að það sé af hinu góða að fólk nýti sér almenningssamgöngur þar sem þær eru aðgengilegar. Þess vegna legg ég svo ríka áherslu á að tryggja t.d. flugsamgöngur í landinu, og vænti þess að ég njóti stuðnings Vinstri grænna um það ekki síst þegar kemur að því að tryggja tiltekna flugvelli og festa þá í sessi.