133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[21:00]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt að hv. formaður samgöngunefndar skuli muna eftir tillögu minni um að breyta umferðarlögum á þann veg að reiðhjól með hjálparmótor fái aukið svigrúm úr 15 km hámarkshraða upp í 25 km hámarkshraða. Ég held það gæti orðið veruleg búbót fyrir okkur hér á höfuðborgarsvæðinu ef við fengjum reiðhjól með litlum hjálparmótorum sem kæmust upp í 25 km hraða. Ég sé fyrir mér fjöldann allan, segjum bara, af eldri borgurum, fólki sem vill hreyfa sig en fer kannski ekki í líkamsræktarstöðvarnar á hverjum degi. Það gæti fengið sér svona reiðhjól með hjálparmótor og notað það til að fara upp brekkuna og svo hjólað að öðru leyti. Þetta fólk gæti þá lagt einkabílnum.

Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að fara að átta sig á því að við rekum ekki sjálfbærar samgöngur á Íslandi öðruvísi en að draga úr notkun einkabílsins. Sjálfstæðismenn þurfa að átta sig á því að þeir þurfa að þora segja: Drögum úr notkun einkabílsins. Fækkum einkabílum í umferð. (Gripið fram í.) Mér finnst það ekki endurspeglast í samgönguáætluninni. Hún gengur út á það að við notum öðruvísi einkabíla, þ.e. þá sem ganga fyrir vistvænni orkugjöfum.

Gott og vel. Það er skref í áttina. En þegar öllu er á botninn hvolft náum við ekki sjálfbæru samgöngumynstri nema við drögum verulega úr fjölda einkabíla. Við þurfum að þora að segja það. (Gripið fram í.)

(Forseti (JónK): Ég ætla að biðja menn um að hafa hljóð í salnum.)