133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[22:20]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins taka til máls aftur um samgönguáætlanir. Mér tókst ekki alveg að komast yfir það efni sem ég ætlaði að gera í fyrri ræðu minni og vildi nefna að auðvitað er þessi samræmda samgönguáætlun byggð upp á mörgum þáttum. Það eru flugmálin, það eru hafnarmálin og það eru vegamálin og auk þess er öryggisáætlunin komin inn í samræmda samgönguáætlun og auðvitað innifelur hún líka þjónustu á vegakerfinu, ýmiss konar þjónustu. Og af því að ég ferðast dálítið um vegi landsins ekki síst að vetri til þá veit ég hversu óskaplega góð upplýsingaþjónusta Vegagerðarinnar er sem er full ástæða til að nefna héðan úr ræðustóli og er eitt af þeim nýmælum sem hefur komið inn varðandi þjónustu Vegagerðarinnar á undanförnum árum.

Um hafnarmálin má segja að frá því að ég kom til þings hafi áherslurnar breyst töluvert, þ.e. að búið er að gera mjög mikið í hafnarmálum og víða má segja að þörfinni sé fullnægt að mestu leyti nema til viðhaldsframkvæmda. Til dæmis hefur á undanförnum árum verið byggð upp mjög öflug hafnaraðstaða á Vopnafirði, einnig á Þórshöfn og stóriðjuhöfn í Fjarðabyggð og stefnir vonandi í sama á Húsavík. Það eru því alltaf einhver slík mál sem eru undir en í rauninni hefur mikil sátt náðst um hafnarmálin og hafnaáætlun á undanförnum árum.

Varðandi vegaframkvæmdirnar vildi ég nefna það sem snýr að mínu kjördæmi, það sem við höfum lagt mikla áherslu á að yrði lokið á næstu árum og ég vil sérstaklega nefna norðausturveginn um Hófaskarð og til Raufarhafnar. Á þessu ári mun vonandi sjá fyrir endann á öllum deilum um hvar vegurinn eigi að liggja og úrskurð í þeim málum og þá munu vonandi fara af stað útboð á þeim vegi með mjög öflugum hætti og var í rauninni löngu kominn tími til vegna þess að fjármagn hefur verið til til þess vegar í nokkurn tíma en því miður ekki tekist að koma framkvæmdinni í gang.

Þarna er auðvitað um mjög stóra framkvæmd að ræða og það má jafnframt segja um veginn frá Vopnafirði upp á hringveginn að við vonumst til að sjá fyrir endann á þeirri framkvæmd á allra næstu árum.

Ég vildi aðeins fá að nefna, hæstv. forseti, að í samgönguáætluninni, langtímaáætluninni, eru geysilega mikil verkefni hvað varðar jarðgöng og þau hafa verið töluvert til umræðu og sú mikla þörf sem er fyrir slíkar framkvæmdir og við sjáum að það er rúm til að hefja þær með mun öflugri hætti en áður hefur verið. Áðan voru Oddskarðsgöngin hin nýju nefnd, jarðgöngin á milli Eskifjarðar og Norðfjarðar, sem gert er ráð fyrir að verði hægt að bjóða út á árinu 2009 og að þeirri framkvæmd verði lokið á árinu 2012. Ég hef klárar upplýsingar um að ef tekst að bjóða framkvæmdina út á árinu 2009 þá verði hægt að ljúka henni á árinu 2012. Það fara tvö og hálft ár í framkvæmdir við göng af þessari stærð þannig að við munum sjá að þá verða þau komin til fullra nota.

Ég vildi einnig vekja sérstaka athygli á þeirri bókun sem fylgir í greinargerð vegna annarra framkvæmda, annarra jarðganga sem hugsuð eru í framhaldi af göngunum milli Eskifjarðar og Norðfjarðar. Í bókuninni kemur fram að vegna hugmynda um önnur jarðgöng á Miðausturlandi verði hægt að ráðast í rannsóknir og áætlunargerð á þessu áætlunartímabili og gert er ráð fyrir að hægt verði að ganga frá áætlunargerð og rannsóknum á fyrsta tímabili áætlunarinnar og eins varðandi jarðgöng á höfuðborgarsvæðinu og til Vopnafjarðar. Það er mjög mikilvægt að það komi fram í umræðunni að gert er ráð fyrir því að svona sé hægt að koma málum fyrir.

Síðan eru Lónsheiðargöngin sem við vitum að er mjög nauðsynleg framkvæmd og í rauninni verða vegamál um skriðurnar, Þvottár- og Hvalnesskriður, ekki leyst með góðu móti. Það er því algerlega nauðsynlegt ef horft er til lengri framtíðar að leysa þann vegarkafla með jarðgöngum undir Lónsheiði og gert er ráð fyrir þeirri framkvæmd á öðru tímabili áætlunarinnar.

Að síðustu vildi ég svo nefna jarðgöngin sem verða framkvæmd í einkaframkvæmd undir Vaðlaheiði. Það kemur fram í áætluninni með mjög skýrum hætti að gert er ráð fyrir að hægt verði að ljúka samningum við þá einkaaðila sem ætla að sjá um þá framkvæmd á þessu ári, árinu 2007. Ég ætla að fá að vitna í greinargerðina á bls. 108, en þar segir, með leyfi forseta:

„Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir jarðgöngum undir Vaðlaheiði sem einkaframkvæmd. Er í því sambandi miðað við þær heimildir sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til nýrra vegalaga, sbr. 17. gr. þess. Vegagerðinni verði falið strax á árinu 2007 að hefja viðræður við hagsmunaaðila. Þar verði fjallað um framkvæmdir, fjármögnun og þátt ríkisins í verkefninu.“

Enn fremur kemur fram í áætluninni að gert er ráð fyrir fjármagni til tengivega við jarðgöng undir Vaðlaheiði. Það kom aðeins fram í umræðunni áðan og menn hafa nefnt að vantað hafi fjármagn til tengivega. Því tel ég ástæðu til að nefna það sérstaklega að í rauninni er gert ráð fyrir að á næsta ári verði fjármagn til tengivega tvöfaldað frá því sem verið hefur og verður svo á næstu árum. Þannig að þrátt fyrir stór orð sem hafa fallið um þetta í umræðunni þá er hér verið að gera verulegt átak til að hægt sé að ráðast í slík stórverkefni í tengivegunum.

Hæstv. forseti. Ég vildi bara hnykkja á þessum atriðum vegna þess að þau stóryrði sem hér hafa fallið eru auðvitað ekki við hæfi en þegar hv. stjórnarandstaða er að fjalla um vegáætlun þá er talað með miklum stóryrðum. Þess vegna vil ég segja og benda á það á móti að hér er um að ræða gífurlega mikið átak í vegamálum sérstaklega, og í öðrum samgöngumálum sem er full ástæða til að vekja athygli á. Satt að segja er margt af því sem hér hefur verið sagt um þetta alls ekki við hæfi.

Ég held að ég láti þessu lokið, hæstv. forseti, og ítreka að hér er um stórmerkar áætlanir að ræða.